Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Handtöku rappara mótmælt þriðja kvöldið í röð á Spáni

19.02.2021 - 02:51
epa09022510 Protesters riot during a march in protest of imprisonment of Spanish rapper Pablo Hasel in central Barcelona, north eastern Spain, 18 February 2021. Riots happened in several Spanish cities after Hasel was sentenced to a nine-months jail sentence after he was found guilty of glorifying terrorism and insulting the crown and state institutions.  EPA-EFE/Alejandro Garcia
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Efnt var til mótmæla í Barselóna og fleiri borgum Spánar í gærkvöld, þriðja kvöldið í röð, vegna handtöku og fangelsunar rapparans Pablos Haséls, sem dæmdur var í níu mánaða fangelsi fyrir óvirðingu við konungsfjölskylduna og „upphafningu hryðjuverka" í textum sínum og færslum á Twitter. Til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda í gærkvöld líkt og fyrri kvöldin tvö.

Tugir mótmælenda handteknir og yfir 100 hafa meiðst

Hasél var handtekinn síðdegis á þriðjudag. Þá strax brutust út harkaleg mótmæli í nokkrum borgum, sem víða þróuðust út í átök og óspektir. Grímuklæddir mótmælendur köstuðu flöskum og öðru lauslegu að óeirðalögreglu, veltu ruslatunnum og reistu götuvígi en svartbrynjuð óeirðalögreglan notað hvorutveggja táragas og háþrýstidælur. Alls hafa um 80 mótmælendur verið handteknir og um eða yfir 100 meiðst í átökunum.  

Aðför að tjáningarfrelsinu

Hundruð spænskra listamanna, með leikstjórann Pedro Almodóvar, leikarann Javier Bardem og söngvarann Joan Manuel Serrat í fylkingarbrjósti, hafa lýst stuðningi við Hasél og fordæmt dóminn yfir honum sem jafngildi árás yfirvalda á tjáningarfrelsið. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa líka látið sig varða mál rapparans Pablos Hásél. Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að  fangelsun hans á grundvelli söngtexta og twitter-færslna sé óforsvaranleg. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV