
Handtöku rappara mótmælt þriðja kvöldið í röð á Spáni
Tugir mótmælenda handteknir og yfir 100 hafa meiðst
Hasél var handtekinn síðdegis á þriðjudag. Þá strax brutust út harkaleg mótmæli í nokkrum borgum, sem víða þróuðust út í átök og óspektir. Grímuklæddir mótmælendur köstuðu flöskum og öðru lauslegu að óeirðalögreglu, veltu ruslatunnum og reistu götuvígi en svartbrynjuð óeirðalögreglan notað hvorutveggja táragas og háþrýstidælur. Alls hafa um 80 mótmælendur verið handteknir og um eða yfir 100 meiðst í átökunum.
Aðför að tjáningarfrelsinu
Hundruð spænskra listamanna, með leikstjórann Pedro Almodóvar, leikarann Javier Bardem og söngvarann Joan Manuel Serrat í fylkingarbrjósti, hafa lýst stuðningi við Hasél og fordæmt dóminn yfir honum sem jafngildi árás yfirvalda á tjáningarfrelsið. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa líka látið sig varða mál rapparans Pablos Hásél. Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að fangelsun hans á grundvelli söngtexta og twitter-færslna sé óforsvaranleg.