Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fagnar skíðasvæðarýmkun rétt fyrir vetrarfrí

19.02.2021 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Miklu skiptir að fleiri mega nú vera á skíðum í einu, segir Hlynur Kristinsson, formaður Samtaka skíðasvæða. Nýjar og rýmri reglur um skíðasvæðin tóku gildi í dag. Forráðamennn skíðasvæða þrýstu á um breytingarnar og Hlynur fagnar að þær séu nú komnar til framkvæmda nú þegar vetrarfrí verður í mörgum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu á mánudag og þriðjudag.

„Það eru vetrarfrí núna og mjög stór helgi almennt á skíðasvæðunum í venjulegu ári. Við sáum fram á að þetta yrði svolítið snúið, sérstaklega fyrir stærri svæðin. Þannig að það skiptir öllu að hækka þetta upp í 50%. En svo sjáum við líka meiri dreifingu milli svæða vegna COVID-19. Þannig að það er meiri aðsókn í minni svæðin sem er mjög jákvætt því þá fáum meiri dreifingu um landið og þetta hlífir stóru svæðunum við því að lenda í miklu veseni með fjölda. Það var orðið uppselt í Hlíðarfjall en við það að þetta sé rýmkað geta þeir væntanlega selt einhverja miða aukalega,“ segir Hlynur sem er jafnframt forstöðumaður skíðasvæðisins á Ísafirði.

Voru ekki margir hættir við að fara út úr bænum á skíði um helgina vegna þess að þeir sáu ekki fram á að komast inn á skíðasvæðin. Er þetta ekki svekkelsi fyrir marga?

„Ég er ekki klár á hvort margir hafi hætt við að koma út á landi. En alla vega finn ég fyrir miklum áhuga hérna á Ísafirði. Það eru margir að koma hingað,“ segir Hlynur.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV