Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Artelia Group leiðir hönnun fyrstu lotu borgarlínu

19.02.2021 - 08:44
Mynd með færslu
 Mynd: Borgarlína
Alþjóðlega verkfræðistofan Artelia Group hannar fyrstu lotu borgarlínunnar, í samstarfi við verkfræðistofurnar MOE og Hnit og arkitektastofurnar Gottlieb Paludan og Yrki arkitekta.

Vegagerðin greindi frá því í gær að niðurstaða lægi fyrir í hönnunarútboði fyrstu lotunnar, sem er um 14,5 km að lengd. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir á henni á næsta ári og að hún verði tekin í notkun árið 2024. „Hönnunarteymið er öflugt og hefur umfangsmikla og fjölbreytta reynslu af hönnun innviða fyrir vistvænar hágæða almenningssamgöngur,“ segir í frétt á vef Vegagerðarinnar. 

Artelia Group starfar í 40 löndum með 6100 starfsmenn og hefur hannað yfir 175 km af hraðvagnakerfium og 255 km af léttlestarkerfum víða um veröld, meðal annars Pau-hraðvagnakerfið í Pýreneafjöllunum og Lens-hraðvagnakerfið í Norður-Frakklandi. 

Danska verkfræðistofan MOE sérhæfir sig sjálfbærum innviðaverkefnum, og sá til dæmis um grunn- og forhönnun fyrir léttlestarkerfið í Kaupmannahöfn. Danska stofan Gottlieb Paludan Architects hannar lausnir fyrir innviði á borð við léttlestir, hraðvagnakerfi og umferðamiðstöðvar víða um heim. Þá eru íslenska arkitektastofan Yrki arkitektar og verkfræðistofan Hnit lykilaðilar í teyminu sem búa yfir nauðsynlegri staðbundinni þekkingu. 

Borgarlínan er hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, undirrituðu árið 2019 samkomulag um viðamikla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára.