Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Alltaf verið að ölmusuvæða bændur

19.02.2021 - 14:00
Mynd: hallaharðar / hallaharðar
Gísli Jóhannsson, garðyrkjubóndi í Dalsgarði í Mosfellsdal, er þreyttur á óvissunni sem fylgir starfinu. Óvissan hafi fælingarmátt sem stöðvi nýliðun í stéttinni.

„Þetta er eitt af því sem er alveg óþolandi við að vera bóndi, alveg sama hvurslags bóndi þú ert. Það er alltaf verið að ölmusuvæða bændur.  Það er alltaf verið að niðurlægja þá með því að þeir þurfi niðurgreiðslu og að þeir þurfi styrk. Það er sjaldan talað um stuðning eða raforku á ódýrara verði,“  segir Gísli Jóhannsson blómabóndi í Dalsgarði í Mosfellsdal.

Gísli er alinn upp í garðyrkju, byrjaði snemma að vinna í gróðurhúsinu með systkinum sínum, en foreldrar hans stofnuðu garðyrkjustöðina árið 1946. Hann tók við Dalsgarði árið 2000 og segist njóta mikilla forréttinda því hann starfi við sína ástríðu, blómaræktin sé gefandi þó hún taki einnig mikinn toll. 

„Þegar við til dæmis fengum fyrst niðurgreiðslu á rafmagni þá stuttu síðar voru orkusala og flutningur aðskilin, og þá hækkaði verðið á flutningi um helming, þannig að niðurgreiðsla í rauninni hvarf. Og þegar við fórum að ibba okkur um að okkur þætti þetta ósanngjarnt, þá var okkur bent á það að við værum búnir að fá þessa niðurgreiðslu,“ segir Gísli sem einnig bendir á aðra breytu sem geri garðyrkjubændum erfitt fyrir, óvissuna. Óvissan sé ekki einungis erfið þeim fáu sem eftir séu í blómaræktinni, heldur hafi hún fælingarmátt. Lítil nýliðun sé í stéttinni þrátt fyrir stóraukinn áhuga á garðyrkju. 

„Viljum við vera með garðyrkju hérna? Viljum við búa þessa hluti til hérna? Það væri gaman ef við hefðum einhverja framtíðarsýn. Við vitum að það er miklu dýrara að gera þetta hérna, en ef ég vissi að það ætti að flytja þetta allt inn,þá veit ég það, og þá get ég bara farið að stefna að því að leggja niður í rólegheitum. Að vera alltaf í óvissuástandi er óþolandi. En það sem bjargar okkur alltaf er kúnninn. Við finnum fyrir svo miklum meðbyr hjá fólkinu í landinu, það vill íslenska vöru. Það væri algjört taktleysi að fara að leggja niður þessa vöru, miðað við hvernig ástandið er í heiminum í dag. Er eitthvað vit í því að vera að flytja blóm frá Afríku til Íslands?“ 

Rætt var við Gísla Jóhannsson, bónda í Dalsgarði í Mosfellsdal, í Samfélaginu á Rás1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

hallah's picture
Halla Harðardóttir