Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vill fækka flöskuhálsum og fjölga hagrænum hvötum

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Stjórnvöld ætla að kortleggja kolefnisspor byggingageirans því það er grunnforsenda þess að geta byrjað að minnka það. Verktaki segir ekki hægt að ætlast til þess að fyrirtæki taki kostnaðinn við að byggja grænni hús alfarið á sig. Skortur á innviðum sé flöskuháls.

 

Byggjum grænni framtíð er nýr samstarfsvettvangur stjórnvalda og fyrirtækja í mannvirkjageiranum. Hann á að meta losun frá byggingariðnaði og setja fram tímasettar aðgerðir um hvernig skuli minnka hana fyrir árið 2030. „Vonandi verður þetta verkefni til þess að allir aðilar innan húsnæðis- og mannvirkjageirans átti sig á því hvað þeir sjálfir geta gert í eigin starfsemi til að efla mannvirkjagerðina og gera hana vistvænni,“ segir Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Þóra Margrét Þorgeirsdóttir.

 

Mikilvægt að fá upplýsingar um umfangið

Talið er að allt að 40% losunar á heimsvísu megi rekja til byggingar og reksturs húsa en það er óljóst hversu mikil losunin er hér og hverng hún skiptist. Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Jáverks, segir að fyrirtæki í geiranum vanti þessar upplýsingar. „Til þess að geta tekið réttar ákvarðanir og  einbeita okkur að stóru málunum, því hvar við getum haft mest áhrif með minnstum tilkostnaði.“

Vinna vistferilsgreiningu

Kolefnisspor byggingariðnaðarins er stórt, það á bara eftir að kortleggja hversu stórt það er. Þá þarf að skoða ýmislegt, ekki bara eldsneytið á vinnuvélarnar heldur líka sementið sem er flutt inn og auðvitað steypustyrktarjárnin. TIl að fá mynd af loftslagsáhrifum byggingageirans á að gera svokallaða vistferilsgreiningu, í því felst að skoða alla losun sem verður við framleiðslu hráefna, flutning þeirra, vinnu á byggingarstað, rekstur húsnæðisins og loks niðurrif og förgun.

Kostar peninga og vinnu

Tækifærin liggja til dæmis í því að minnka sóun, nota loftslagsvænni steypu og endurnýta í anda hringrásarhagkerfisins - en það kostar bæði vinnu og peninga að bæta sig. „Það er ekki sjálfgefið að einkafyrirtæki taki þetta á kassann, það vantar auðvitað alla hagræna hvata til þess að byggja umhverfisvænt. Það myndi alveg klárlega ýta fleirum af stað,“ segir Gylfi. 

Hann segir Hafnafjarðarbæ hafa gengið fram með góðu fordæmi og gefið afslátt af lóðagjöldum vegna umhverfisvottaðra nýbygginga en meira þurfi til. „Það gætu verið allavega hvatar, það eru auðvitað þekkt dæmi um að endurgreiða rannsóknar og þróunarkostnað, til dæmis í nýsköpun.“ 

Flöskuhálsar og sóun

Gylfi telur það að hugsa um umhverfismálin eiga, til lengri tíma litið, eftir að skila sér í auknum gæðum og betri samkeppnishæfni en innviðirnir séu flöskuháls, stundum þurfi að knýja dísilrafstöðvar vegna lélegs aðgengis að rafmagni á byggingarstöðum og því ýmislegt sem þarf að breytast áður en vinnuvélar verði rafvæddar. Þá séu mörg dæmi um sóun. Nýlega hafi til dæmis orðið 40% afföll af efni í utanhússklæðningu hjá einum verkkaupa Jáverks því það var bara í boði að kaupa ákveðið magn.  

 

Mynd með færslu
 Mynd: vsó-ráðgjöf/rúv