Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Þingmaður vill að velferðarnefnd fjalli um spilakassa

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sara Elísa Þórðardóttir, varaþingmaður Pírata, hefur farið fram á það að velferðarnefnd Alþingis fundi um spilafíkn og spilakassa. Búist er við að málið verði tekið upp í nefndinni á næstunni.

Í bréfi Söru til velferðarnefndar sem fréttastofa hefur undir höndum segir að forsendur núverandi lagaumhverfis spilakassa séu löngu brostnar.

Hún segir hugmyndir hafa komið fram um hlutalausn á vandamálinu sem snúi meðal annars að innleiðingu spilakorta. „Samtök áhugafólks um spilafíkn hafa tekið undir þær hugmyndir. Þetta fyrirkomulag er byggt á norrænni fyrirmynd sem hefur reynst vel.“

Landsbjörg og Happdrætti Háskóla Íslands hafa einnig lýst yfir áhuga sínum á að spilakort verði tekin upp hér á landi. 

Sara segir Rauða Kross Íslands nú hafa óskað eftir auknu samtali við stjórnvöld í þeirri von að reka verkefni hans með öðrum hætti en með rekstri spilakassa. 

Sara Elísa hvetur nefndina til að kalla til gesti. Fundurinn verði tvískiptur og fjalli annars vegar um áhrif spilafíknar á líf fíkilsins og fjölskyldu hans ásamt stefnu stjórnvalda og þau meðferðarúrræði sem til séu. 

Á hinn bóginn fer Sara fram á að velferðarnefnd ræði mögulegar lausnir varðandi fjármögnun starfsemi Rauða Krossins, Landsbjargar og Háskólans.