Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þarft að vita hvar línan er og byggja upp traust“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þarft að vita hvar línan er og byggja upp traust“

18.02.2021 - 20:28
„Þú þarft að vera mjög fær í því að gera þetta, þú þarft að vita hvar línan er og þú þarft að byggja upp traust,“ segir Brynjar Karl Sigurðsson, körfuboltaþjálfari, um þjálfunaraðferðir sínar í Kastljósi í kvöld. Brynjar Karl og liðin hans eru tekin fyrir í heimildamyndinni Hækkum rána.

Þjálfunaraðferðir Brynjars Karls eru umdeildar. Greinar hafa verið skrifaðar gegn þeim, til að mynda af Viðari Halldórssyni. Brynjari Karli finnst ótrúlegt að þurfa að verja aðferðir sínar. Hann sé að miklu leyti sammála grein Viðars, en forsendurnar sem hann gefi sér séu rangar. 

Horfa upp á minni framtíðarmöguleika

„Ég hef sjálfur aldrei viljað koma beint að kvennaþjálfuninni,“ segir Brynjar Karl. Þegar hann eignaðist dóttur hafi hann byrjað að skoða þessa hluti. „Stelpurnar horfa upp á það að framtíðarmöguleikarnir eru minni. Sú upplifun er mjög sterk, og það er upplifun stórs hóps að kröfurnar séu minni,“ segir hann og bætir því við að kvennakarfan sé verðminni.

„Partur af því að styrkja mótlætaþol hjá börnum er að setja þau í erfiðar aðstæður,“ segir Brynjar Karl þegar hann er spurður út í þjálfunaraðferðir sínar. „Það sem fræðasamfélagið hefur ekki kynnt sér, er það að við köllum þetta svona flughermir. Þetta er einfaldlega þannig að krakkarnir eru búnir undir það að fara á æfingu ,og á æfingunni þá ætlum við að búa til alls konar aðstæður eins og koma upp í körfuboltaleik og partur af því eru erfiðar æfingar,“ segir hann og bætir því við að ráin sé hækkuð varðandi tækni og ýmislegt.

Ekki allra

Aðspurður hvort aðferðir hans séu eitthvað sem honum finnst að allir þjálfarar eigi að tileinka sér segir Brynjar Karl svo alls ekki vera. „Þú þarft að vera mjög fær í því að gera þetta, þú þarft að vita hvar línan er og þú þarft að byggja upp traust. Þetta er ekkert sem þú hristir fram úr erminni,“ segir hann. Þetta séu ákveðnar aðferðir sem hann sé búinn að þróa með unglinga og með árunum hafi hann orðið færari í því sem hann er að gera. „Svo þegar ég byrja að þjálfa þetta stelpulið þá byrja ég bara á því að taka pínkulítil skref og sé að þetta virkar.“

„Mér finnst halla svolítið á þessar stelpur,“ segir Brynjar Karl og segir rödd þeirra gleymast. Umræðan um þjálfunaraðferðir hans yfirgnæfi rödd stúlknanna. „Ég sé mig knúinn til þess að halda þessu áfram til þess að þetta gleymist ekki og þessar stelpur fái þá virðingu sem þær eiga skilið“.