Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rússar boða æfingar norður af Noregi

18.02.2021 - 17:07
epa08114555 (L-R) Russian President and Armed Forces Supreme Commander-in-Chief Vladimir Putin, Russian Defense Minister Sergei Shoigu, Commander-in-Chief of the Russian Navy Admiral Nikolai Yevmenov, and Commander of the Russian Army's Southern Military District Colonel General Alexander Dvornikov attend on board of the Russian Northern fleet's Marshal Ustinov missile cruiser watches the joint drills of the Northern and Black sea fleets in the Black Sea, Crimea, 09 January 2020. The exercise included Kalibr cruise missiles and Kinzhal hypersonic aero-ballistic ballistic missiles firing.  EPA-EFE/ALEXEI DRUZHININ / SPUTNIK / KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT
Vladimír Pútín ásamt hershöfðingjum um borð í Marshal Ustinov. Mynd: EPA
Rússar boða flugskeytatilraunir á Barentshafi, skammt norðan við Noreg, næstu vikuna. Alþjóðaflugmálastofnunin hefur gefið út tilkynningu til flugmanna um að gæta sín á stóru svæði milli Bjarnareyjar og meginlands Noregs.

Á vefmiðlinum The Barents Observer segir að tímasetningin sé að öllum líkindum ekki tilviljun. Fjórar bandarískar B-1 sprengjuþotur eru væntanlegar til Örland flugstöðvarinnar í sunnanverðum Noregi. 200 bandarískir hermenn eru þegar komnir í flugstöðina. 

Barents Observer hefur eftir Kristian Åtland, hjá varnarmálarannsóknarstofnun Noregs, að stjórnvöld í Moskvu gætu með þessum æfingum verið að lýsa óánægju sinni með sprengjuþoturnar. 
Brynjar Stordal, talsmaður norska hersins, staðfestir að Rússar hafi tilkynnt um flugskeytatilraunir á alþjóðahafsvæði á milli Noregs og Bjarnareyjar. Hann segir Norðmenn eiga eftir að fylgjast með aðgerðunum, en það sé Rússa að tryggja öryggi við tilraunirnar. 

Rússneski herinn hefur verið við æfingar í Barentshafi undanfarna daga. Orrustubeitiskipið Marshal Ustinov sigldi frá Severomorsk 9. febrúar til æfinga með kafbátaleitarflugvélum. Skipið er hlaðið stýriflaugum, flugskeytum og tundurskeytum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV