Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Of fáir lögreglumenn og of stutt gæsluvarðhald

Mynd: RÚV / RÚV
Lögreglan þyrfti að hafa auknar heimildir til að geta rannsakað afbrot sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi, segir Runólfur Þórhallsson, yfirlögregluþjónn í greiningardeild Ríkislögreglustjóra. Gæsluvarðhaldsúrskurðir séu gjarnan of stuttir. Þá hafi ekki gengið að fjölga lögreglumönnum hér að ráði.

Runólfur segir í viðtalið í Morgunútvarpi Rásar 2 að lögreglan hafi síðustu ár haft áhyggjum af skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi.

„Við höfum verulegar áhyggjur af þessari þróun sem hefur verið hér undanfarin ár. Þetta er fíkniefnaframleiðsla, sala á fíkniefnum, vændi, mansal,“ segir Runólfur.

Hann bendir á að í Svíþjóð hafi verið ákveðið að efla lögregluna svo hún geti betur tekið á skipulagðri glæpastarfsemi. Lögreglumönnum hafi verið fjölgað og lagaheimildir auknar, til að mynda hvað varðar eignaupptöku. Hér hafi ekki tekist að fjölga lögreglumönnum að ráði.

„Við erum á svipuðum stað og við vorum 2007, rúmlega 700,“ segir Runólfur. Þetta sé staðan þrátt fyrir að lagt hafi verið til í skýrslu fyrir tæpum áratug að fjölga lögreglumönnum um 200.

Þá þurfi lagabreytingar. „Það sem við höfum kallað eftir er það að það séu ákveðnir þættir í okkar heimildum endurskoðaðir. Þar er ég ekki að tala um þessar forvirku rannsóknarheimildir. Ég er að tala um aðrar hefðbundnar rannsóknarheimildir. Þá eru ýmsar hömlur sem draga úr gæðum rannsókna. Það afmarkaður stuttur tími, hámarkstími, á gæsluvarðhaldi sem hefur áhrif í svona flóknum stórum rannsóknum. Það þarf að afhenda gögn. Það getur verið varhugavert þegar stutt er komið í rannsókn að þurfa að afhenda gögn,“ segir Runólfur.