Leggur til frekari tilslakanir innanlands á næstu dögum

18.02.2021 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir stefnir á að skila tillögum til heilbrigðisráðherra um tilslakanir innanlands um helgina eða snemma í næstu viku. Þetta sagði hann á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Hann sagði mikilvægt að fara hægt í tilslakanir og að ekki væri komið að því að aflétta grímuskyldu.

Þórólfur sagði að með hertum sóttvarnareglum á landamærum, sem taka gildi á morgun, gæfist tækifæri til að slaka á reglum innanlands.

Á morgun tekur gildi ný reglugerð um sóttvarnir á landamærunum sem skyldar farþega til að framvísa neikvæðu PCR-vottorði sem ekki má vera eldra en 72 klukkustunda gamalt. Hann minnti á að nýju reglurnar kæmu til viðbótar við reglur um tvöfalda skimun og sóttkví, sem nú þegar eru í gildi.  

Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir

Má skylda fólk í farsóttarhús í sérstökum tilvikum 

Í nýju reglugerðinni felast einnig heimildir til að skylda fólk í einangrun eða sóttkví í farsóttarhúsi ef sýnt þykir að fólk hafi ekki neitt viðunandi húsnæði til að dvelja í og eins ef fólk er smitað af einhverju af meira smitandi afbrigðum kórónuveirunnar. Þórólfur sagði að samhliða því að innleiða nýju reglugerðina stæði til að skerpa á ýmsum verkferlum á landamærum. Undanskildir reglunum yrðu þeir sem gætu sýnt að þeir hefðu fengið COVID-19 eða væru bólusettir við COVID-19.

Þórólfur útskýrði að með nýja fyrirkomulaginu mætti lágmarka líkurnar á því að smit bærist hingað til lands frá útlöndum og einnig mætti með því sýna fram á það hvort virkilega væri þörf á því að krefja fólk um seinni skimun þrátt fyrir að það hefði framvísað vottorði um neikvæða niðurstöðu fyrir komu. „Og þessi reynsla mun reynast vel þegar við förum að huga að tilslökunum á landamærunum,“ sagði hann og minnti á að til stæði að taka upp breytt fyrirkomulag á landamærum þann 1. maí þar sem fólk yrði krafið um neikvætt PCR-vottorð og eina skimun við komuna til landsins, annað hvort strax við komu eða seinna, og stytta eða leggja alveg niður sóttkví fyrir ferðamenn hér á landi. „Það að ráðast í þetta fyrirkomulag núna (sem tekur gildi á morgun) mun gefa vísbendingu um það hversu öruggt þetta fyrirkomulag verður,“ segir Þórólfur.