Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Háskólamenntaðar konur jafntekjuháar ómenntuðum körlum

18.02.2021 - 09:32
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Konur í sambúð með meistaragráðu (MSc) hafa að jafnaði næstum hundrað þúsund krónum lægri heildartekjur á mánuði en karlar í sambúð með grunnháskólamenntun (BSc). Konur með grunnháskólamenntun hafa svipaðar heildartekjur og karlar sem aðeins hafa lokið grunnskóla, og á landsbyggðinni hafa þeir hærri tekjur en þær. Þetta er meðal þess sem má lesa út úr nýuppfærðri tekjusögu stjórnvalda, en gögnin eiga við skattárið 2018.
 

Ef horft er á tekjur kynjanna óháð menntun hafa karlar í sambúð að meðaltali 794 þúsund krónur á mánuði og konur í sambúð um 564 þúsund krónur á mánuði. Heildartekjur karla eru því að jafnaði um 29 prósentum hærri.

Munurinn mikill á landsbyggðinni

Kona í sambúð á landsbyggðinni hefur að meðaltali 33 prósentum lægri heildartekjur en karl í sömu stöðu. Ef horft er aðeins til þeirra sem hafa meistarapróf er munurinn svipaður; karl með meistarapróf í sambúð á landsbyggðinni hefur að sama skapi að meðaltali 31 prósenti hærri heildartekjur en kona í sömu stöðu. 

 

Á landsbyggðinni hafa konur með grunnskólamenntun 36 prósentum lægri heildartekjur en karlar í sömu stöðu. Karl í sambúð á landsbyggðinni sem aðeins hefur lokið grunnskóla hefur um 50 þúsund krónum hærri tekjur en kona í sömu stöðu sem hefur lokið grunnháskólaprófi (BSc).