Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hæstiréttur dæmir Þórhall miðil til 18 mánaða fangelsis

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hæstiréttur hefur dæmt Þórhall Guðmundsson sem hefur verið nefndur miðill í átján mánaða fangelsi fyrir að hafa brotið kynferðislega á ungum manni fyrir rúmum tíu árum.

Þórhalli er jafnframt gert að greiða unga manninum 1.200 þúsund krónur í miskabætur vegna þeirra afleiðinga sem brotið hafði á hann. Jafnframt greiðir hann áfrýjunarkostnað málsins.

Ungi maðurinn kærði brotið árið 2016 en það var framið á heimili þess dæmda í september 2010 þar sem Þórhallur hefði fróað honum án samþykkis er hann lá nakinn á nuddbekk. Þórhallur auglýsti sig sem heilara.

Málinu var skotið til Hæstaréttar í september í fyrra að beiðni Þórhalls en þar var ekki fallist á þær málsástæður að brot hans hefði ekki verið refsivert árið 2010.

Ákvæði almennra hegningarlaga um ólögmæta nauðung var breytt árið 2018 þegar skortur á samþykki varð hluti af verknaðarlýsingu nauðgunarákvæðis 194. greinarinnar.

Ekki þótti heldur hafa verið brotið gegn rétti Þórhalls til milliliðalausrar sönnunarfærslu í héraði og Landsrétti. Hann var dæmdur fyrir nauðgun á báðum dómstigum.

„Þrátt fyrir alvarleika brots Þórhalls þótti ekki næg ástæða til að hagga við refsingu hans með hliðsjón af þeim langa tíma sem hafði liðið frá því að brotið átti sér stað og þar til brotaþoli tilkynnti um það til lögreglu og ákæra var gefin út.“
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV