Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Enn finnast myglugró í Fossvogsskóla

18.02.2021 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Ný myglugró fundust við sýnatöku í Fossvogsskóla í desember. Á þessu skólaári hafa tíu börn glímt við einkenni sem hugsanlega má rekja til myglu í skólanum. Foreldrum og forsvarsmönnum skólans var kynnt ný skýrsla um stöðuna á fundi í gær. 

Löng saga

Mygla hefur verið viðvarandi vandamál í skólanum síðan í byrjun ársins 2019 og búið að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir til að komast fyrir hana.  Um tíma þurfti að kenna nemendum skólans annars staðar. Kostnaðurinn við framkvæmdirnar nemur um 500 milljónum og ekki sér alveg fyrir endann á vandanum.  Reykjavíkurborg boðaði í gær til fundar með foreldraráði skólans forsvarsmönnum skólans, samtökum foreldra grunnskólabarna í Reykjavík og formanni félags grunnskólakennara. Á fundinum voru kynntar niðurstöður frá verkfræðistofunni Verkís um ástand húsnæðisins. Skýrslan hefur ekki verið gerð opinber en til stendur að birta hana á heimasíðu borgarinnar í dag. Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs borgarinnar, segir í samtali við fréttastofu að við úttekt í desember hafi fundist myglugró í millilofti ofan við kennslustofu, en frágangi hafi verið ábótavant við rakasperru í loftinu. Hann segir að hugsanlega geti þessi gró borist inn í kennslustofuna og því þurfi að bregðast við. 

Tíu börn veikst en enginn kennari

Helgi segir að frá í haust hafi borgin fengið tilkynningar um tíu börn sem sýnt hafi einkenni sem foreldrar telji að tengist loftmengun í skólanum, unnið sé með foreldrum þessara barna og fylgst með líðan þeirra. Þorgerður Diðriksdóttir,  formaður félags grunnskólakennara sat fundinn og fékk það á hreint að enginn kennari við skólann er í veikindaleyfi vegna raka eða myglu.

Vilja hafa samvinnu að leiðarljósi 

Myglumálin hafa tekið á og skapað ósætti milli foreldra, skólans og borgarinnar. Ragnheiður Davíðsdóttir, formaður Samfok, samtaka foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, segir að á fundinum í gær hafi verið lögð áhersla á samvinnu og gagnsæi. Hún segir alla nú vera að gera sitt besta til að hafa samskiptin góð. 

Leiðrétting: Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að foreldrar hefðu setið fundið, hið rétta er að fulltrúar foreldra í skólaráði skólans sátu hann.