Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bandaríkin greiða leið að viðræðum við Íran

18.02.2021 - 23:56
epa07687216 (FILE) - A general view of the Iranian nuclear power plant in Bushehr, southern Iran, 21 August 2010 (reissued 01 July 2019). According to Iranian media on 01 July 2019, Iran has passed the limit on its stockpile of low-enriched uranium by exceeding of 300kg that was set in a landmark 2015 nuclear deal made with world powers. The International Atomic Energy Agency (IAEA) said it will file a report.  EPA-EFE/ABEDIN TAHERKENAREH
Bushehr-kjarnorkuverið Í Íran. Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjastjórn er tilbúin til viðræðna um endurreisn kjarnorkusáttmálans við Íran. Hún tilkynnti jafnframt að fullyrðingar fyrrverandi forseta um nýjar viðskiptaþvinganir Sameinuðu þjóðanna gegn Íran ættu ekki við rök að styðjast.

Ned Price, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, greindi frá þessu í kvöld. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, sat fund með starfsbræðrum sínum frá Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi í dag. Þar sameinuðust þeir um að skora á írönsk stjórnvöld að láta af hótunum sínum um að meina eftirlitsmönnum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar aðgang að kjarnorkuverum Írans. 

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst vilja til að ganga aftur inn í kjarnorkusáttmála Írans við stórveldin, sem undirritaður var 2015. Forveri hans, Donald Trump, dró Bandaríkin einhliða úr samningnum árið 2018, og sagði jafnframt að viðskiptaþvinganir yrðu aftur lagðar á ríkið. Nú segir Bandaríkjastjórn að fullyrðingar Trumps um viðskiptaþvinganir Sameinuðu þjóðanna frá því í ágúst eigi ekki við rök að styðjast. Íranir hafa hingað til sagt að þeir séu tilbúnir að samningaborðinu ef Bandaríkin aflétta viðskiptaþvingunum.

Þá aflétti Bandaríkjastjórn einnig ströngum ferðahömlum sem fyrrverandi stjórn setti á erindreka Írans hjá Sameinuðu þjóðunum með aðsetur í New York. Utanríkisráðuneytið segir hugmyndina að baki því vera að fjarlægja óþarfar hindranir á milli ríkjanna.