Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Að rækta andann í lágvöruverslun

Reikna má með að páskaegg rati í innkaupakörfuna næstu daga - Mynd: RÚV / RÚV

Að rækta andann í lágvöruverslun

18.02.2021 - 10:47

Höfundar

Hvar eiga útivinnandi mæður að finna slökun í dagsins amstri? Hvar má finna stað og stund þar sem enginn gerir kröfu um þjónustu, útlit eða athygli. Kannski í Bónus? Í Lestinni á Rás 1 ræddi Una Björk Kjerúlf um þriðju vaktina og rifjaði upp þegar hún féll á sjálfsræktarprófinu.

Mér fannst ég heldur betur hafa dottið í lukkupottinn, fyrir þó nokkrum árum síðan, þegar ég fann loksins tíma og stað fyrir hugleiðslu, smá núvitundarskot í erli dagsins þar sem ég átti stund með sjálfri mér, stefnumót við mína innri konu sem hversdags var sjaldan laus á deit. Og eins og með flestar hugdettur og uppgötvanir þá er maður ekkert að útvarpa þeim ef ske kynni að þær væru alger snilld sem gott er að sitja ein að, nú eða bara frekar glataðar.

Hugleiðslan fólst í því að fara ein í Bónus, eða aðra kjörbúð að eigin vali, barnlaus, og sóna þar út. Í búðinni var engin krafa um aðgangskort, enginn fastur tími, aldrei uppbókað, ekkert spandex- eða jógadress, enginn glamúr, bara ég með smá stund aflögu þar sem enginn var að kalla á mig, engan þurfti að þjónusta, enginn ófrágenginn þvottur eða drasl sem beið afgreiðslu, ekkert verk sem þurfti að sinna annað en þau margæfðu og nærri ósjálfráðu viðbrögð að tína kunnuglega hluti úr hillum ofan í körfu, það sama og vanalega. Engin krafa um fókus og athygli.

Misskiljið mig ekki, ég fór vissulega í búðina til að sinna innkaupum en í einni af þessum rútínuferðum stóð ég mig að því að finna óvænt frið og kyrrð mitt á milli morgunverðarpakka og vítamína, smá zen-stund þar sem áreiti dagsins lak af mér. Já, bara ég og innkaupakerran, og þúsund hillumetrar af dagvöru og allt hitt fólkið í umferðinni á milli ganganna og mögulega einhver útvarpsstöð með ofurhressum kynni sem segir hvað klukkan slær á milli slagara sem líma sig við heilabörkinn. Þarna, á ólíklegasta stað, fann ég rósemd og prívattíma sem útivinnandi mæður eiga oft óljósa minningu um en hafa glatað í dagsins önn. Og mikið var það ljúft að leyfa sér að setja í hlutlausan gír, ná að útiloka áreitið í kringum sig, tæma hugann og njóta augnabliks-örskots-sjálfsnæringar, eins og Palli, ein í heiminum í búðinni.

Þið skiljið af hverju ég hélt þessu fyrir mig, og af hverju búðarferðirnar urðu stundum svolítið langar. Þetta er hjómar nefnilega mjög óspennandi og það er og var óralangt frá steríótýpískum hugmyndum mínum um hina skipulögðu húsmóður sem nær að skapa rými fyrir reglulega og heilbrigða sjálfsrækt á þar til gerðum stöðum úti í bæ. Þetta var meira svona hey í harðindum, án alls ásetnings, laust við fagurfræði og fagmennsku, mjög ó-Instagramvæn augnablik sem enginn hefur áhuga á að pósta. Á stuttum tíma náði ég að mastera Bónushugleiðsluna og kreista út úr henni smá slökun og afvindingu. Ég kærði mig kollótta þó ég kæmi samferðafólki mínu mögulega fyrir sjónir eins og uppvakningur með fjarrænt augnaráð og kjánalegt bros á vör, jafnvel mæmandi með dægurlögum liðinna vinsældarlista, því þetta var mín stund, mín fábrotna aðferð til að ná andanum og draga hann djúpt. Ég var bara nokkuð ánægð með mig og enn þann dag í dag geri ég þetta þegar ég stíg inn í stórmarkað, ég dett út og í slökunarfasa. Þetta er gerist alveg ósjálfrátt núorðið, leifar af gamalli sjálfsbjargarviðleitni, vani eins og svo margt annað. Ég hef ekki enn almennilega gefið mér tíma til að sinna hugleiðslu í öðru formi en á hlaupum og milli atriða sem eru að renna út á tíma þó ég hafi viðleitni til að gera betur. Þetta hefur bara verið látið duga.

Það var svo fyrir skömmu að ég tók mér smá pásu frá samfélagsmiðlum. Ég hafði fengið svolítið nóg af þeim, af öllum þessum algóriþmum sem skilgreina mig sem einhverja manneskju sem ég kannast bara ekkert við, eða vil ekki kannast við, ef gengið er út frá þeim auglýsingunum og tillögum að lesefni sem rekur á fjörur tímalína og fréttamiðla sem ég heimsæki. Kannski var þetta eitthvert afbrigði af COVID-þreytu eða -þroti en alla vega var hvíldin góð og hughreinsandi. Mér var svo skyndilega kippt niður á jörðina þegar ég kom til baka úr fríinu. Eitt það fyrsta sem algóriþmarnir stungu upp á að ég læsi á ferð minni um netið var grein eftir konu að nafni Meredith Ethington; móður, rithöfund og bloggara, sem kastar hressilega blautri tusku í andlitshæð í kynsystur sínar og stafar algengan misskilning ofan í okkur nægjusömu skyndislökunarmeistarana. Við sinnum engri fjandans sjálfsrækt á hlaupum og alls ekki án ásetnings. Að uppfylla grunnþarfir okkar sem manneskju er ekki það sama og að iðka sjálfsrækt. Þar fauk Bónushugleiðslan.

Meredith segir að það séu varhugaverð skilaboð þegar önnum kafnar mæður fagna nokkurra mínútna einhveru á baðherberginu eða barnlausri búðarferð eins og um endurnærandi frí væri að ræða. Hún bendir á að slíkum búðarferðum fylgi gjarnan einhvers konar aðgerða- og minnislisti yfir þarfir annarra. Hinn óendanlega langi listi þriðju vaktarinnar þar sem álagið er slíkt að við kvenfólkið tökum hverri smástund sem við finnum fyrir okkur sjálfar sem nærandi sjálfsumhyggju, sem er víðsfjarri því að vera raunin. Sjálfsrækt endurnærir og gefur orku en tekur hana ekki frá okkur segir hin kjarnyrta Meredith og vísar í orð sálfræðingsins Agnesar Wainman. Sjálfsrækt er meðvituð ákvörðun, aðgerð sem þjónar einungis okkur sjálfum.

Í pistli sínum bendir Meredith á að það sé allt í lagi, ef það gerir eitthvað fyrir okkur, að fara einar að versla en það sé engin sjálfsrækt. Að kaupa nærföt og uppþvottalög er ekki sjálfsrækt. Að setjast niður til að næra sig eða að fá sér heitan kaffibolla er ekki sjálfsrækt. Að hlaupa á eftir barni á leikvelli er ekki hreyfing sem flokkast undir sjálfsrækt. Að taka sér veikindadag þegar þú ert veik er ekki sjálfsrækt. Og að hlusta á hljóðbók á meðan þú brýtur saman þvottinn, eldar matinn eða sinnir þörfum annarra er ekki sjálfsrækt heldur svokallað „múltitask“ á slæmri íslensku; það að hamast við vinna mörg verk á sama tíma undir álagi.

Hún Meredith er ekkert að flytja okkur nýjar fréttir, við vitum þetta svo sem mætavel enda hafa rannsóknir sýnt að þrátt fyrir ýmsar jafnréttisbætur síðustu áratuga bera konur enn hitann og þungann af utanumhaldi heimilis og fjölskyldu. Við skyldum ekki vanmeta litlu augnablikin sem við getum nýtt til að leyfa huganum að bráðna eins og ís á sólskinsdegi og „tsjilla“ smástund en það er gott að átta sig á að til lengdar eru Bónushugleiðslur á ferð og flugi aðeins það, smá bónus, tækifæri sem gripið er þegar það gefst, kannski bara hálmstrá.

Ég gerði mér vissulega grein fyrir því að þegar Bónus og Krónan voru orðin musteri hugleiðslu minnar var ákveðnum lágpunkti náð. Þú kemst varla nær því að skrapa botn hversdagslífsins. Það var nefnilega svo að þessi skammvinna sæla barnlausu búðarferðanna, þar sem verslað var fyrir og með þarfir allra í fjölskyldunni í huga, tók alltaf enda þegar út í bíl var komið. Á leiðinni heim hófst aftur samstarf heilahvelanna sem unnu markvisst að því að ekki myndi gleymast að kaupa afmælisgjöf fyrir bekkjarsystur sonarins, að takkaskórnir dótturinnar væru orðnir of litir, að kanna þyrfti hvaða dag yrði opnað fyrir bókanir í sumarhús stéttarfélagins. Muna svo að fylgja eftir heimavinnu, skiladögum og lokafresti. Aðstoða við verkefni í samfélagsfræði. Finna sundkortið. Muna að endurnýja bókasafnsskírteinið, panta tíma hjá augnlækni, já, bakkelsi fyrir bekkjarkvöld unglingsins (athuga með ofnæmi og fæðuóþol). Gera lista yfir þetta allt saman svo ekkert gleymist. Koma öllum snemma í háttinn og vakna úthvíld. Finna tíma fyrir alvöru sjálfsrækt einhvers staðar þarna inn á milli. Muna að gleyma engu. Og kanna hvort við séum mögulega öll með D-vítamínskort. Gera svo nýjan lista fyrir næstu viku. Þetta er held ég nokkuð lýsandi og dæmigert sýnishorn af heilastarfsemi konu á kílómetra kafla á heimleið úr búðinni í síðdegisumferðinni.

Þetta byrjar allt og endar með þriðju vaktinni svokölluðu, þessari vakt sem engin starfslýsing er til fyrir en flestar konur sinna með því að taka á sig hina andlegu byrði utanumhalds og skipulags fjölskyldu og heimilis. Ég man ekki eftir því í svipinn að þekkja neina konu sem hefur nokkru sinni skrifað undir ráðningarsaming varðandi þessa ólaunuðu vinnu, hvað þá farið í atvinnuviðtal, en samt hafa flestar þeirra endað á þessari vakt þar sem vaktaskipti eru alltof fátíð, jafnvel án þess að átta sig á því að þær séu að sinna þessu fulla aukastarfi.

Það er mesta furða hvað við komumst áfram á sjálfsblekkingunni og þó sjálfsbjargarviðleitnin sé góðra gjalda verð er hún skammgóður vermir í smáskömmtum. Sjálfsrækt krefst nefnilega blygðunarlauss ásetnings um að sinna sjálfri sér og leggja önnur verkefni til hliðar um stund eða úthýsa þeim. Við getum eðlilega ekki gefið eftir verk sem við erum ekki meðvituð um að við sinnum en þegar algóriþmarnir senda okkur harðort skeyti frá einhverri Meredith Ethington sem bendir á hið augljósa, er erfitt að skorast undan því að taka sér meira pláss, gefa sér tíma, segja upp vaktavinnunni sem við sóttum aldrei um og græja hugleiðsluna fjarri allri neytendavöru og sjúklega hressum útvarpsgaurum.

Una Björk Kjerúlf flutti pistil sinn um Bónus-hugleiðsluna fyrst í Lestinni á Rás 1, þriðjudaginn 16. febrúar 2021. Hægt er að hlusta á pistilinn í heild sinni í spilaranum hér að ofan eða í þætti Lestarinnar á hlaðvarpsveitum.