Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Verið að skella í lás“

17.02.2021 - 19:16
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að landinu hafi verið skellt í lás með hertum aðgerðum á landamærunum. Óvenjumikið hefur verið að gera hjá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins í dag við að svara fyrirspurnum vegna aðgerðanna.

Frá og með föstudeginum verður farið fram á neikvætt COVID-19 próf fyrir komuna til landsins og má það ekki vera eldra en þriggja sólarhringa gamalt. Íslendingum sem framvísa ekki vottorði verður ekki meinaður aðgangur inn í landið en geta átt von á sekt.

Utanríkisþjónustunni hefur borist töluverður fjöldi fyrirspurna frá Íslendingum erlendis vegna aðgerðanna, „bæði til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins og eins sendiskrifstofa okkar út um eiginlega allan heim. Þannig að það hefur verið óvenju mikið að gera,“ segir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins.

Icelandair sendi í dag skilaboð og tölvupósta á alla farþega sem eiga bókað flug hingað til lands um helgina og þá bendir Sveinn á að heppilegt geti verið að sækja upplýsingar á vefsíðu ráðuneytisins eða á COVID.is. „Flestir ef ekki allir eiga að komast til síns heima á endanum,“ segir Sveinn.

„Skammur fyrirvari með svona skapar alltaf vandamál og það vill bara svo til að það eru svo fáir sem eru á ferðinni núna að vandamálin eru kanski ekki mjög stór,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Ísland verður á föstudaginn fjórtánda ríkið í Evrópu sem skyldar alla komufarþega til að sýna fram á neikvætt COVID-19 próf. Noregur er eina ríki Norðurlandanna sem skyldar ákveðin ríki en ekki önnur - en Ísland er ett af fáum ríkjum Evrópu þar sem fólki er bæði skylt að sýna fram á neikvætt COVID-19 próf og fara í sóttkví.

„Það er algjörlega ljóst að þarna er bara verið að skella í lás umfram það sem þegar var orðið. Þetta eru þá orðnar langhörðustu sóttvarnaaðgerðir í Evrópu og alveg klárt mál að á meðan þetta stendur er ekki möguleiki að það komi hingað ferðamenn að neinu ráði,“ segir Jóhannes.

Jóhannes segir að í Evrópu kosti COVID-19 próf gjarnan um fimmtíu til sextíu evrur. Á Íslandi kostar slíkt próf um 14 þúsund krónur fyrir ferðamann frá EES og gæti hann því þurft að greiða um 22 þúsund krónur fyrir prófin. 

Jóhannes segir breytingarnar 1. maí skipta miklu máli en þá tekur litakóðakerfi við og komufarþegar frá löndum með lágan smitstuðul geta sloppið við sóttkví. „Við hefðum gjarnan viljað sjá þetta heldur fyrr. Um miðjan apríl eða í byrjun apríl,“ segir hann.

Uppfært: Áður kom fram að Ísland væri eina ríki Evrópu þar sem allir eru bæði skyldaðir í sóttkví og til sýna fram á neikvætt COVID-19 próf. Það fyrirkomulag er einnig í Danmörku.