Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þrír til viðbótar úrskurðaðir í gæsluvarðhald

17.02.2021 - 23:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrír karlmenn voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í kvöld úrskurðaðir í sjö daga gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn lögreglu á morðinu í Rauðagerði síðustu helgi. Mennirnir voru allir handteknir á höfuðborgarsvæðinu í gær.

Sjö eru nú í haldi lögreglu vegna málsins. Einn var handtekinn á sunnudag, og þrír á mánudag. Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sagði í fréttum sjónvarps klukkan sjö að málið væri eitt það stærsta og flóknasta sem lögreglan hefur fengist við undanfarin ár.

Mennirnir sem eru í haldi eru allir á fertugsaldri, fyrir utan einn, sem er á fimmtugsaldri.

Lögreglan gerði húsleit í þremur heimahúsum á höfuðborgarsvæðinu í gær og lagði hald á ýmislegt, bæði minni muni og ökutæki, sagði Margeir í dag.