Sumir æskuvinanna hafa lent í fangelsi

Mynd: Svala Jóhannesdóttir / Aðsend

Sumir æskuvinanna hafa lent í fangelsi

17.02.2021 - 15:08

Höfundar

„Að vera heimilislaus er held ég það erfiðasta sem fólk getur lent í,“ segir Svala Jóhannesar Ragnheiðardóttir sem hefur unnið með heimilislausu fólki í þrettán ár og meðal annars stýrt Konukoti og Frú Ragnheiði. Hún er alin upp í Keflavík sem henni þykir afar vænt um, en félagslegur vandi var þar algengur þegar hún var ung og stéttaskipting mikil.

Svala Jóhannesar Ragnheiðardóttir er alin upp í Keflavík. Hún telur að uppvaxtarárin hafi haft mjög mótandi áhrif á hana og að mörgu leyti gert hana góðan og áhugasaman starfsmann á þeim vettvangi sem hún hefur valið sér. Í Segðu mér á Rás 1 sagði hún frá uppeldinu, starfi með heimilislausu fólki og virðingunni sem hún ber fyrir öllum skjólstæðingum sínum sem hún mætir á jafnréttisgrundvelli.

Sumir bjuggu hjá einstæðum mæðrum í lítilli blokkaríbúð

Svala er fædd 1983 og þegar hún var að alast upp var félagslegur vandi mikill í Keflavík. Margir af vinum hennar bjuggu við erfiðar heimilisaðstæður, fátækt var sýnileg og innan vinahóps hennar var mikill stéttamunur. „Sumar bjuggu hjá einstæðum mæðrum í lítilli blokkaríbúð en aðrar bjuggu í rosalega fínu risastóru húsi uppi á Völlum eins og við kölluðum það,“ rifjar hún upp. „Á þessum tíma, sem unglingur, áttaði maður sig kannski ekki fyrr en seinna. Þegar maður fór að kynnast stigveldum samfélagsins, í raun bara þessari miklu stéttaskiptingu,“ segir Svala.

Sumir gömlu vinanna hafa lent í fangelsi

Svala segir að sumir af æskuvinunum, sem bjuggu við erfiðar aðstæður og slæma líðan, hafi síðar lent í fangelsi, sitji jafnvel inni í dag. Einhverjir hafi þróað með sér alvarlegan vímuefnavanda. „Ég held þetta hafi mótað lífsskoðun manns. Maður mannast svolítið á þessum veruleika og að fá innsýn í aðstæður fólks, jafnvel þungbæra,“ Aðstæður hennar voru hins vegar og eru allt aðrar. „Ég sjálf hafði alltaf öruggan stað til að fara á, mín fjölskylda var öruggt rými fyrir mig að leita til.“

Í dag þykir Svölu mjög vænt um Keflavík og að hafa alist upp við að bera virðingu fyrir öllum. „Að hafa fengið þessa innsýn sem barn og unglingur og tækifæri til að sjá þessar aðstæður. Átta mig á að það eru ástæður fyrir öllu,“ segir hún. „Þegar ég hitti þetta fólk í dag er ég með stærra sögulegt samhengi.“

Sá að þetta væru góðir menn þótt þeir væru veikir

Þegar Svala var að alast upp var faðir hennar forstöðumaður á áfangaheimilinu Fjólunni á Akureyri. Þar bjuggu menn sem voru að koma úr vímuefnameðferð og bjó Svala á áfangaheimilinu þegar hún heimsótti föður sinn fyrir norðan. „Þegar ég fór að heimsækja pabba fór ég á Fjóluna og var þar með honum og öllum körlunum. Þetta var svo frábær tími og ég er svo þakklát að hafa fengið þessa reynslu sem barn því þetta mótaði svo mikið viðhorf mín gagnvart mönnunum sem voru þarna,“ segir hún. „Ég áttaði mig ekki á því fyrr en mörgum árum seinna hvað þetta mótaði lífsskoðanir mínar.“

Kynni Svölu af mönnunum á Fjólunni gerðu henni auðveldara að skilja eðli vandans og sjúkdóminn sem margir glímdu við. „Að sjá að þetta séu góðir menn þó þeir séu veikir,“ segir hún. Stundum þegar hún kom aftur nokkru eftir síðustu heimsókn tók hún eftir að það vantaði menn í hópinn. Faðir hennar sagði henni að þeir hefðu veikst og væru nú farnir. „Svo frá unga aldri fékk ég rosalega góða innsýn inn í fíknivanda.“

Mennirnir á áfangaheimilinu kenndu henni að baka og teikna

Svölu var alltaf vel tekið á Fjólunni og hún leit á íbúana sem vini sína. Það var augljóslega gagnkvæmt og þeir stjönuðu við hana. „Þeir voru að kenna mér að baka og kenna mér að teikna. Fyrir mér var þetta algjörlega frábært og ég hlakkaði alltaf til að heimsækja pabba á Fjóluna,“ segir hún. „Þetta var svo dýrmætt og svo fallegt hús og mér þótti svo vænt um pabba minn og þessa menn.“

„Vertu velkomin, hér eru allar brjáluðu konurnar“

Það lá því vel fyrir Svölu að hefja störf í Konukoti árið 2007. Hún vann þar í nokkur ár og stýrði í tvö og hóf svo störf hjá Frú Ragnheiði árið 2015 þar sem hún vann í fimm ár. Hana grunaði ekki að hún færi þessa leið í lífinu en í Konukoti áttaði hún sig fljótt á því að hún væri á réttum stað. „Maður kemur þarna inn og þetta er ótrúlega fallegt úrræði. Það kom mér á óvart hvað þetta er heimilislegt, kósý og þægilegt.“

Móttökurnar voru hlýjar. „Ég man að fyrsta konan sem ég hitti, Sigrún Ólafs heitin sem lést fyrir nokkrum árum, kenndi mér rosalega margt,“ segir hún. „Ég man að fyrst þegar ég kom og hún sagði: Þú ert ný! Vertu velkomin, hér eru allar brjáluðu konurnar!“ Svala hlær. „Ég skildi aldrei hvað hún var að meina því þær eru svo langt frá því að vera brjálaðar.“

Þykir ótrúlega vænt um Konukot

Umræðan er blessunarlega að opnast að sögn Svölu og þessi heimur heimilislausra sé ekki eins hulinn og fordæmdur og áður. „Þegar ég byrjaði 2007 var þetta mjög falið. Og þegar ég var að segja fólki á þessum tíma að ég væri sjálfboðaliði og svo starfsmaður í athvarfi fyrir heimilislausar konur gapti fólk. Vissi ekki að það væri til, hélt þær væru kannski fimm.“

Konurnar voru, og eru enn, mun fleiri en fimm.  Á þessum tíma leituðu um 50-100 konur í Konukot ár hvert en í dag eru þær alltaf yfir hundrað. „Þetta er töluverður fjöldi af konum og þær sem leita í Konukot eru fyrst og fremst konur sem hafa engan annan stað til að vera á. Svo Konukot er svolítið síðasti staðurinn, annars ertu bara svolítið úti. Mér þykir ótrúlega vænt um Konukot og þetta er magnað úrræði.“

Börn sem búa við ótta líklegri til að þróa með sér vímuefnavanda

Svala segir að margir hinna heimilislausu eigi sér mikla og erfiða áfallasögu. Langstærstur hluti hópsins sé með vímuefna- og geðrænan vanda. Svala hefur meðal annars velt fyrir sér í því samhengi hvað veldur því að sumir þrói með sér alvarlegan vímuefnavanda og segir að síðustu 10-15 ár hafi áfallafræðin sýnt fram á að fólk með þunga áfallasögu, sérstaklega úr barnæsku, sé stærsti áhættuhópurinn. „Barn sem býr við aðstæður þar sem það upplifir mikinn ótta eða það er brotið á því, heili og taugakerfi þeirra þroskast á annan hátt. Þannig að einstaklingurinn er viðkvæmari fyrir ýmsu seinna meir í lífinu.“

Eðlilegt að leita í eitthvað til að lifa sársaukann af

Ef aðstæður fólks eru krefjandi og það býr við sársauka og vanlíðan sé það líklegra til að ánetjast jákvæðri tilfinningu sem það finnur í vímunni og að sækir endurtekið í hana. „Þá er eðlilegt að fólk leiti í eitthvað utanaðkomandi til að reyna að lifa sársaukann af. Þegar fólk fer að nota þetta sem deyfingu, sjálfsmeðhöndlun og ákveðið bjargráð, það er sá hópur sem þróar með sér þyngsta vímuefnavandann.“ Þegar Svala vinnur með fólki í alvarlegum vímuefnavanda skoðar hún sögu þess og orsakasamhengið. „Hvað er efnið að gefa þér? Og þegar þú ert ekki með efnið í þér, hvernig líður þér?“

„Að vera heimilislaus er held ég það erfiðasta sem þú lendir í“

Svala segir að það sé ekki einfalt fyrir manneskju í forréttindastöðu, eins og hún sé sjálf, að útskýra hvernig er að vera heimilislaus. „Ég á mína íbúð, er með nokkrar háskólagráður, er í vinnu, hvít og með blátt vegabréf og get gert allt sem ég vil. Það er himinn og haf á milli mín og manneskjunnar sem ég hef verið að aðstoða.“ Það sé sérstaklega mikilvægt að vera meðvitaður um þennan mun.

„En að vera heimilislaus er held ég það erfiðasta sem fólk lendir í. Ég hef oft sagt að það sé það versta sem samfélagið getur gert fólki. Þú átt engan öruggan stað og ekkert skjól. Skjólið þitt snýst um að vera háður annars konar úrræðum og öðrum aðilum.“

Þetta fyrirkomulag bjóði hættunni heim og að vandinn vaxi gjarnan í þessum aðstæðum. „Þetta er viðkvæmur hópur með þunga áfallasögu, mikinn vímuefna- og geðrænan vanda,“ segir hún. „Ef fólk er með geðrænan vanda verður hann miklu verri ef fólk er heimilislaust, ef fólk er með vímuefnavanda eykst hann mikið í heimilisleysi. Við sjáum það bæði í innlendum og erlendum gögnum að ofskömmtun hjá heimilislausum er meiri en hjá þeim sem eiga húsnæði.“

Mikilvægt fyrir öryggi og mannlega reisn að eiga eigið heimili

Svala telur hyggilegast að öllum sé tryggt öruggt skjól með yfirráð yfir sjálfum sér og heimili sínu. „Mér finnst þetta bara mannréttindi,“ segir hún. „Það lágmarkar vanda þeirra og skiptir svo miklu máli fyrir mannlega reisn að geta átt sitt eigið heimili og gert að sínu. Að geta haft mörk, hver er velkominn og hver ekki. Ekki vera upp á aðra kominn.“

Auk þess segir hún að rannsóknir sýni að sparnaður felist í því fyrir samfélagið að tryggja fólki eigið húsnæði. „Þegar fólk er heimilislaust er það miklu líklegra til að verða fyrir slysum og ofbeldi. Allur vandi eykst,“ segir hún. „Hópurinn notar mjög mikið dýr þjónustuúrræði, lögreglu, bráðamóttöku og sjúkrabíla því það er svo mikið krísuástand alltaf í gangi.“

Frú Ragnheiður var sett á laggirnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2009 og er byggð á hugmyndafræði um skaðaminnkun. Tilgangurinn er að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu eins og húsnæðislausra og einstaklinga sem nota vímuefni um æð og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu í formi heilbrigðisþjónustu og nálaskiptiþjónustu. Þar starfaði Svala í fimm ár. Hjá Frú Ragnheiði er meðal annars tryggður hreinn og sótthreinsaður búnaður til að lágmarka hættu þeirra sem nota vímuefni um æð á að smitast til dæmis af HIV, lifrarbólgu eða öðrum sýkingum. 

Snýst um að lifa eða deyja

Þegar úrræðið var fyrst stofnað heyrðust gagnrýnisraddir um að ekki væri rétt að þjónusta fólk á þennan hátt heldur ætti að leyfa því að finna botninn svo það fengi hvatningu til að spyrna sér upp. „Alls konar mýtur koma fram en rannsóknir sýna að þegar fólk er komið á svona alvarlegan stað snýst þetta oft bara um að lifa eða deyja.Og maður þarf að nálgast fólk á þeirra forsendum. Fyrsta markmið skaðaminnkunar snýst alltaf um að reyna að aðstoða fólk við að halda lífi. Að það lifi kaflann af.“

Sumir staldra stutt við í þessum kafla sem Svala nefnir en aðrir dvelja í honum megnið af lífinu. Fyrst og fremst snúist skaðaminnkun um að gefa fólki tækifæri til að halda lífi, hve langur sem kaflinn kann að vera. „Svona verkefni snýst mikið um lýðheilsu en líka mannréttindi fólks. Maður afsalar sér ekki mannréttindum þó maður þrói með sér alvarlegan vímuefnavanda,“ segir Svala. „Fólk á enn rétt á mikilvægri heilbrigðisþjónustu, virðingu og skilningi.“

Ekki dæma heldur mæta fólki á jafnréttisgrundvelli

Bæði Frú Ragnheiður og Konukot eru skaðaminnkunarúrræði og hugmyndafræðin sú sama, að dæma ekki heldur mæta fólki í því ástandi sem ríkir. „Að skilja sögu fólks og hvað veldur því að það sé komið á þennan stað. Að vera ekki í því hlutverki að dæma og fordæma heldur mæta fólki á jafréttisgrundvelli og þjónusta á sínum forsendum.“

Engin krafa um að hætta eða fara í meðferð

Áhersla er lögð á að búa til öruggt umhverfi þar sem hver sem er getur gengið inn, lagt niður varnirnar og rætt um það sem hann vill ræða um. „Það er engin krafa um að hætta eða fara í meðferð. Og það er svo frelsandi fyrir fólk að fá rými sem það fær algjörlega að vega og meta stöðu sína.“

Stundum talar fólk að fyrra bragði um að það vilji fara í meðferð og komast úr þessu líferni. Stundum kveðst það ekki treysta sér til þess eða ekki geta ímyndað sér lífið án þess að vera í neyslu. „Þetta er allt á þeirra forsendum því rannsóknir sýna að það er það sem aðstoðar fólk mest. Þegar fólk fær frelsi til að ákveða sjálft og taka skrefin þegar það er tilbúið, það skilar mestum árangri.“

Hefur sjaldan orðið hrædd

Í starfi sínu hefur Svala sjaldan fundið til ótta. „Ég hef mjög sjaldan orðið hrædd, kannski einu sinni eða tvisvar upplifað: Núna gæti ég dáið. Sem mér finnst líka rosalega hollt að horfast í augu við því það er ótrúlegur styrkur í því,“ segir hún. „Maður kemst yfir það og lærir svo mikið af því.“

Almennt upplifi hún enga hættu og sé ekki ógnað af neinum. Hún viðurkennir að mögulega finnist fólki sem vinnur á öðrum stað í kerfinu að því sé ógnað á einhvern hátt en þar sem hún hefur starfað með nálgun sem byggist á forsendum og mannréttindum hópsins sé viðmótið bara hlýtt. „Þú færð svo miklu meira þakklæti og fólk verður oft hissa, vá hvað þú ert næs,“ segir hún. „Ég kem fram við þig eins og ég kem fram við alla aðra. Þessi hópur er oft óvanur því að fólk hafi einlægan áhuga á þeim og þeirra líðan.“ Í dag er Svala sjálfstætt starfandi en ekki hætt að starfa á þessum vettvangi. Hún tekur að sér fjölbreytt verkefni og nýtur þess að ráða tíma sínum.

Viktoría Hermannsdóttir ræddi við Svölu Jóhannesar Ragnheiðardóttur í Segðu mér á Rás 1Hér er hægt að hlýða á viðtalið í heild sinni.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Hún kláraði krabbameinsmeðferðina með barn á brjósti“