Sturta og kandífloss á öskudaginn 

Mynd: Krakkafréttir / Krakkafréttir

Sturta og kandífloss á öskudaginn 

17.02.2021 - 14:05

Höfundar

Öskudagurinn er eflaust hápunktur vikunnar hjá mörgum börnum landsins enda helsti búningadagur ársins. Systurnar Emma og Elia eiga framtíðina fyrir sér í búningagerð. Þær taka öskudaginn hátíðlega og hafa verið nokkra daga að föndra sína búninga, sturtu og kandífloss.   

Kórónuveiran setur strik í reikninginn í dag eins og aðra daga. Almannavarnir hafa boðað öðruvísi öskudagsskemmtanir og lagt til ýmsar leiðir til að njóta dagsins í samræmi við sóttvarnareglur. Í stað þess að fara milli búða og syngja fyrir nammi eru börn og foreldrar hvött til að skemmta sér á heimavelli sínum, í skólanum, á frístundaheimilinu eða í félagsmiðstöðinni. Ungir sem aldnir eru hvattir til að brjóta upp á hversdagsleikann og láta sjá sig í búningi.  

Öskudagurinn er upphaf lönguföstu  

Öskudagurinn tengist kristinni trú og á sér langa sögu. Þetta er fyrsti dagur lönguföstu sem stendur yfir í fjörutíu daga eða alveg fram að páskum. Fasta er tímabil þegar fólk borðar ekki ákveðinn mat og oft er það í trúarlegum tilgangi. 

Ösku af brenndum pálmagreinum dreift yfir höfuð kirkjugesta

Nafn dagsins á rætur í þeim kaþólska trúarsið að dreifa ösku af brenndum pálmagreinum yfir höfuð kirkjugesta. Hér á landi hefur lengi tíðkast að festa litla öskupoka á fólk, helst þannig að það taki ekki eftir því. Í dag eru fleiri sem hlakka til að klæða sig upp í búning og syngja fyrir nammi. Aðrir siðir hafa einnig fylgt deginum, eins og að slá köttinn úr tunnunni og að hengja öskupoka aftan í fólk. Þann sið má einnig rekja til kaþólskunnar.

Öskupokar hafa tíðkast alla vega frá 18. öld 

Elsta íslenska heimildin um öskupoka er úr orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnavík, frá 18. öld. Þar segir: 

 “Öskupoki, stundum öskuposi: Lítill poki fylltur ösku, sem piltar eða stúlkur hengja, sér til gamans á klæði annarra eða koma öðrum til að bera óvart á einhvern hátt á öskudag, það er að segja miðvikudag í föstuinngang. Sama á við um burð á steinum eða steinvölum. Þessi venja er án efa leifar úr kaþólskum sið.” 

Fjallað var um öskudaginn í Krakkafréttum á RÚV.