Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Slæm fjárhagsstaða bitnar á öldruðu heimilisfólki

Mynd: RÚV / RÚV
Erfið fjárhagsstaða fjölmargra hjúkrunarheimila bitnar á fólkinu sem þar býr, segir Gísli Páll Pálsson, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Hann segir að hækka þurfi daggjöld til heimilanna um um það bil tíu prósent til þess að laga ástandið, eða um þrjá til fjóra milljarða króna á ári. Sjúkratryggingar Íslands hafa greitt heimilum aukakostnað í tengslum við faraldurinn, en deilt hefur verið um þann kostnað að undanförnu. Gísli Páll segir að heimilin muni mikið um þann kostnað.

„Þau standa orðið aðeins betur en fyrir viku síðan því að í þessari viku greiddu Sjúkratryggingar Íslands út þennan kostnað sem mér skilst að sé upp á rúmlega 500 milljónir,“ segir Gísli Páll. „Og það munar verulega um það. Þannig að staðan hefur batnað en hún er ekki orðin góð hjá öllum og verður það kannski ekki á þessu ári.“

Hvað skýrir það fyrst og fremst?

„Það eru allir sammála um það; ráðherra, forstjóri Sjúkratrygginga og fleiri, að það sé aðeins of lágt gefið. Daggjöldin eru aðeins of lág. Og það er nefnd undir forystu Gylfa Magnússonar sem er að kostnaðargreina rekstur hjúkrunarheimila. Og sú nefnd kemur vonandi til með að skila skýrslu innan örfárra vikna. Þá kemur í ljós hvað það vantar mikið upp á. Og eins og gengur og gerist, þá er reksturinn misjafn á milli heimila. Það eru ekkert allir nákvæmlega eins þannig að þó tekjurnar séu eins þá er kostnaðurinn kannski aðeins misjafn.“

Krafa um niðurskurð

Hvaða kostnaður er misjafn? Geturðu nefnt dæmi um það?

„Það er launakostnaðurinn sem er 80% af kostnaði hjúkrunarheimila, hann er aðeins misjafn á milli heimila. Bæði eru kjarasamningar aðeins breytilegir eftir því hvort um er að ræða sjálfseignarstofnun eða sveitarfélagaheimili. Síðan er mönnun misjöfn á milli heimila, bæði fjöldi starfsmanna og svo hversu hátt hlutfall er fagmenntað á móti þeim sem eru ekki fagmenntaðir. Auðvitað hefur það áhrif.“

Vantar mikið upp á daggjöldin?

„Nei. Ég er nú í þessari ágætu Gylfanefnd og hef einhverjar innherjaupplýsingar um það. Þetta eru ekki mjög mörg prósent og það er kannski óábyrgt að giska á það en einhvers staðar á milli átta og 14, 16 prósent, ég get ekki alveg sagt til um það. En það vantar aðeins upp á þetta, já.“

Hafið þið reiknað hvað það myndi kosta hið opinbera á ári að kippa þessu í liðinn?

„Nei. En útgjöldin eru á milli 30 og 35 milljarðar þannig að 10% hækkun þýðir 3-3,5 milljarðar. Þetta eru kannski engar svakalegar tölur finnst okkur en þegar það er þröngt í búi eins og hjá ríkinu í dag, þá skil ég það alveg að það sé kannski ekkert auðvelt að hækka framlögin. Síðastliðin fjögur ár hefur verið niðurskurðarkrafa frá ríkinu upp á hálft prósent á hjúkrunarheimilin, og við höfum ekki einu sinni fengið að sjá útreikninga síðasta árs, hvernig launabreytingar voru reiknaðar út. Við vorum kannski ekkert sammála því hvernig þær voru reiknaðar út, en við fáum ekki einu sinni að vita hvernig þær eru reiknaðar.“

Fjársvelti

Það að einhver hjúkrunarheimili séu illa stödd fjárhagslega, bitnar það einhvern tímann á heimilisfólkinu?

„Ég held að það hljóti að gera það þó að kannski að sjálfsögðu starfsfólk og stjórnendur þessara heimila reyni að gera allt sem þau geta til þess að það bitni ekki á þeim. Og kannski er það ekki endilega að bitna á þeim nákvæmlega í dag en ef þú ert fjársveltur lengi, þá fer kannski ýmiss búnaður að gefa sig, hjálpartæki, lyftur til að lyfta fólki úr rúmum, húsnæðið gefur eftir fyrir rest og verður úrelt, lélegt og fer kannski að leka. Þannig að þetta gerist kannski ekki á einhverjum vikum eða mánuðum og jafnvel ekki á einhverjum par árum. En yfir lengri tíma litið, ef þú ert alltaf í fjársvelti, þá gefur til dæmis húsnæðið eftir.“

Meirihluti hjúkrunarheimila eru sjálfseignarstofnanir, en sum eru þó rekin af sveitarfélögunum. Nokkur sveitarfélög hafa þurft að greiða með þeim á undanförnum misserum, og við það eru þau ekki sátt.

„Forsvarsmenn sveitarfélaganna, bæjarstjórnir og bæjarstjórarnir, hafa ákveðið að skila rekstrinum til ríkisins því að þau hafa verið að greiða með rekstrinum undanfarin ár, mismiklar fjárhæðir. Þetta verkefni er á lögformlegu forræði og á ábyrgð ríkisins þannig að sveitarfélögunum finnst eðlilega ekki sanngjarnt að vera að borga peninga út úr sveitarsjóði til þess að niðurgreiða það sem ríkið ætti að greiða.“

Sársaukamörk

Þannig að þetta er í þeim tilfellum þar sem sveitarfélögin eru að greiða meira en þau höfðu ætlað sér í þetta verkefni?

„Ja, þau eiga ekki að greiða neitt. Ekki í rekstur hjúkrunarheimilanna. Þau hafa komið að uppbyggingu víða, með 15% framlagi á móti ríkinu og framkvæmdasjóðnum. Þannig að ef þú borgar 2 milljónir þá ertu að borga tveimur milljónum of mikið með rekstrinum. Auðvitað má líka kannski segja að það séu einhver sársaukamörk. Það er kannski ekkert mikið ef til dæmis Akureyrarbær borgar 10 milljónir á ári með rekstri hjúkrunarheimila en þegar það er orðið kannski 110 eða 210 milljónir á ári, þá fara menn að velta því fyrir sér hvort það sé rétt að standa að þessu svona.“

En hvers vegna fer það svo að sveitarfélögin þurfa að greiða með rekstrinum?

„Það er bara þannig að einhver ber ábyrgð á rekstrinum, og sveitarfélögin bera ábyrgð á þessum rekstri. Og í þessum tilfellum, ef sveitarfélögin hefðu ekki látið fjármagn inn í þetta, þá hefðu laun væntanlega ekki verið greidd út og fólk hefði bara neitað að vinna þarna og farið. Og heimilisfólkið hefði setið eitt eftir. Og það er enginn sveitarstjórnarmaður og enginn venjulegur, almennilegur maður myndi skilja fólk eftir.“

Þannig að í þessum tilfellum eru sveitarfélögin að segja; „hingað og ekki lengra, ríki gjörðu svo vel, hér er hjúkrunarheimilið?“

„Já, og það er það sem er að gerast núna með tvö heimili á Akureyri, á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og í Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði. Þetta gerist núna 1. apríl og 1. maí.“

Er þetta ekki slæmt, að þetta skuli gerast?

„Jú, auðvitað er þetta slæmt því að það er æskilegast að þetta haldi áfram bara með svipuðu móti. En ef það er einhver sem treystir sér til þess að reka þessi heimili fyrir þessi daggjöld sem ríkið er að greiða í dag, með sambærilegri þjónustu, og greiða sveitarfélögunum húsaleigu fyrir húsnæði sem þau eiga, þá er það bara gott mál ef einhver er svona svakalega góður rekstrarmaður. Vonandi er hann til en ég sé það ekki fyrir mér.“

Ekkert annað í boði

Þannig að í stuttu máli, helsti vandi hjúkrunarheimila er sá að það þarf að hækka daggjöldin. Er vilji til þess og hvenær sérðu fram á að það muni gerast?

„Jú, ég hef heyrt vilja og menn hafa verið að bíða eftir niðurstöðu Gylfanefndarinnar eins og ég kalla hana. Og innan einhverra vikna kemur niðurstaða. Og ég trúi ekki að menn taki sér langan tíma í að skoða það, hversu mikið þau ætla að hækka framlögin því að ef til vill er hægt að skoða þessi sveitarfélagamál upp á nýtt, ef það koma tekjur sem skipta það miklu máli að sveitarfélögin þurfa ekki að setja mikinn pening í það. En auðvitað get ég hvorki svarað fyrir ríkið né sveitarfélög með það hvernig þau samskipti koma til með að verða ef það kemur einhver alvöru peningur inn í þetta.“

En þú ert bjartsýnn á að þessu verði kippt í liðinn á þessu ári?

„Já, því það er ekkert annað í boði. Daggjöldin eins og þau eru í dag koma ekki til með að standa undir rekstri heimilanna. Auðvitað eru einhver heimili, teljandi á fingrum annarrar handar, af þessum 42-44 heimilum, sem eru réttu megin við núllið af einhverjum ástæðum, sem er náttúrulega gott mál. En 80-90% af heimilunum voru rekin með halla síðustu 2-3 ár. Þannig að meginþorri heimila er rekinn með halla, ekki öll. Þannig að það hlýtur að þurfa að færa meðaltalið upp varðandi tekjurnar,“ segir Gísli Páll.