Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Síðasta hrunsmálið fyrir Landsrétti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðalmeðferð hófst í Landsrétti í morgun í síðasta hrunmálinu. Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson eru ákærðir fyrir umboðssvik vegna lánveitinga til aflandsfélaga vildarviðskiptavina Kaupþings skömmu fyrir hrun. Féð var notað til flókinna viðskipta með skuldatryggingar á Kaupþing í von um að álagið lækkaði. Lántakarnir áttu að fá allan hagnað ef einhver yrði. Sakborningar voru sýknaðir í héraði.

Dómstóllinn sagði ekki sýnt fram á að stjórnendurnir þrír hefðu misnotað aðstöðu sína sér til ávinnings.  Þetta er síðasta hrunmálið sem er í gangi, ef undan eru skilin þau sem hafa verið endurupptekin.

Byrjað á skýrslu Hreiðars Más úr héraðsdómi

Aðalmeðferðin stendur í þrjá daga í Landsrétti. Fyrsti dagurinn fer í að hlusta á upptökur af skýrslum sem fluttar voru í Héraðsdómi Reykjavíkur við aðalmeðferð málsins. Einnig gefst sakborningum á að bæta við upplýsingum. Byrjað var á skýrslu Hreiðars Más úr héraði og stendur sá hluti yfir í um tvær klukkustundir. Upptaka af henni er sýnd á tveimur skjáum í dómsalnum. 

Gríma eða ekki gríma

Fyrsta úrlausnarefni dagsins var þó að finna út úr því hvaða reglur giltu um grímunotkun. Sóttvarnaráðstafanir gilda ekki í dómstólum og fýsti viðstadda því að vita hvaða reglur giltu í dómsal. Réttarvörður sagði í fyrstu að það væru vinsamleg tilmæli að fólk notaði grímur. Þegar dómarar gengu í salinn og hófu réttarhöldin sagði forseti dómsins að fólki væri í sjálfsvald sett hvort það væri með grímu fyrir vitum. Fljótlega eftir það hurfu grímur úr dómsal. 

Málið hefur velkst lengi um í kerfinu. Rannsókn hófst eftir hrun og ákæra var gefin út 2014. Þremenningarnir voru sýknaðir 2016 en Hæstiréttur ómerkti dóminn 2018. Ári síðar voru Hreiðar, Sigurður og Magnús sýknaðir á ný. Ákæruvaldið áfrýjaði sýknudóminum til Landsréttar. 

510 milljóna dollara peningamarkaðslán

Málið snýst um viðskipti með skuldatryggingaálag á Kaupþing. Það hafði hækkað mikið árið 2008 og reyndu Kaupþingsmenn í samvinnu við Deutsche Bank að snúa þeirri þróun við. Því var ráðist í viðskipti með skuldatryggingar á bankann með það að markmiði að lækka álagið. Aflandsfélög í eigu Ólafs Ólafssonar, Kevins Stanford og fleiri vildarviðskiptamanna fengu peningamarkaðslán að fjárhæð 510 milljón dollar, þá andvirði um 40 milljarða króna en 66 milljarða að núvirði til viðskiptanna. Það fé tapaðist þegar bankinn varð gjaldþrota en síðar endurheimti slitastjórn Kaupþings stóran hluta fjárins eftir baráttu við Deutsche Bank.