Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir að hertar aðgerðir á landamærum breyti ekki miklu

17.02.2021 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að hertar aðgerðir á landamærum sem taka gildi á föstudaginn breyti ekki miklu á meðan allir komufarþegar eiga að fara í sóttkví. Mikilvægt sé að COVID-19 próf séu sem hagkvæmust fyrir ferðamenn.

Frá og með föstudeginum verður farið fram á neikvætt COVID-19 próf fyrir komuna til landsins. Prófið má ekki vera eldra en 72 tíma gamalt. Tvöföld sýnataka verður jafnframt áfram í gildi.

„Svona í stóru myndinni breytir þetta ekki miklu núna eins og ástandið er. Á meðan þessi fimm daga skyldusóttkví er í gildi fyrir alla sem koma til landsins fer engin ferðaþjónusta af stað,“ segir Bjarnheiður.

Samtökin horfa til 1. maí þegar litakóðakerfi verður tekur upp og komufarþegar frá löndum með lágan smitstuðul geta sloppið við sóttkví. Þangað til er ekki raunhæft að að selja ferðir til landsins, að mati Bjarnheiðar.

Borgaraþjónustan hefur fengið töluvert af fyrirspurnum um breytt fyrirkomulag á landamærunum. Hins vegar kemur fyrst og fremst í hlut ferðaþjónustufyrirtækja að láta ferðamenn og seljendr erlendis vita af breytingunum.

Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair segir að flugfélagið hafi þegar hafist handa við það. Tvær vélar Icelandair koma til landsins á föstudaginn og þurfa farþegarnir að hafa hraðan á við að koma sér í skimun. „Við erum að senda tölvupóst og sms á alla farþega sem eru að koma til landsins til að láta vita af þessum breyttu reglum,“ segir Ásdís Ýr.

Nokkuð margar þjóðir krefjast neikvæðs COVID-19 prófs komufarþega en misjafnt er hversu gamalt prófið má vera. Í Dankmörku má það til að mynda ekki vera eldra en 24 tíma og því verða farþegar sem koma þangað að fara í hraðpróf. Norðmenn þurfa til að mynda að greiða tæplega 30 þúsund krónur fyrir slíkt hraðpróf.

„Það er kannski eitthvað sem við þurfum frekar að hafa áhyggjur af í framtíðinni þegar ferðalög komast á fulla ferð en þá held ég að það sé mjög mikilvægt að reyna að draga sem mest úr þessum kostnaði og að þessi próf verði sem hagkvæmust fyrir ferðamenn,“ segir Bjarnheiður.