Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óviðeigandi að „klæða sig“ í kynþátt annarra

17.02.2021 - 18:38
Mynd: EPA / EPA
Ekki er sama í hvernig búninga fólk klæðir sig á öskudaginn, sem er í dag. Margir af búningum fortíðar þykja í dag hreinlega særandi. Búningavalið vekur því upp ýmsar siðferðilegar spurningar. Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir Straumland, formaður Siðmenntar, telur að draga eigi línuna þannig að fólk klæði sig ekki í menningu annarra sem búning.

Nokkrar umræður hafa verið um búning kennara á Ísafirði á svokölluðum maskadegi sem haldinn er hátíðlegur að kvöldi bolludags þar í bæ. Kennarinn klæddi sem upp sem Araba. Kennaranemum blöskraði valið á búningnum og sendu skólastjóra Grunnskólans á Ísafirði tölvupóst þar sem þeir gagnrýndu uppátækið. Fjallað er um málið á vef DV. 

Inga Auðbjörg sagði í viðtali í Síðdegisútvarpinu í dag að val á búning sé ekki spurning um hvað megi eða megi ekki, heldur sé þetta spurning um að reyna að særa ekki aðra. „Það hlýtur að vera flestum okkar keppikefli að koma fallega fram við fólk og ég held að það sem er að gerast er að umræðan um það hvað fer fyrir brjóstið á fólki er meira að koma upp á yfirborðið,“ segir hún. Mál sem þessi séu í dag rædd á netinu þar sem fólk heyri önnur sjónarmið en aðeins sinna nánustu. 

Hvar liggur línan, er þetta spurning um að vera ekki að niðurlægja aðra eða gera grín að viðkomandi? „Það er oft notað orðalagið að kýla upp fyrir sig en ekki niður fyrir sig. Ég held að línan liggi þar, er ég að taka einhvern menningarhóp, einhvern kynþátt, eitthvert þjóðerni og klæða mig í þá menningu eins og einhvern búning, segir Inga. 

epa06518211 A reveller with a blackface make-up celebrates during the Rose Monday carnival parade in Mainz, Germany, 12 February 2018. Mainz is one of the carnival strongholds in Germany with its Rose Monday parade jokingly criticising political and social developments. Rose Monday is the traditional highlight of the carnival season in many German cities.  EPA-EFE/ARMANDO BABANI
Frá skrúðgöngu í Mainz í Þýskalandi í febrúar 2018.  Mynd: EPA

Þegar öskudegi lýkur fer fólk heim og klæðir sig úr búningnum en það sé ekki þannig hjá frumbyggjum eða fólki sem tilheyri ákveðnum þjóðarbrotum. Það sé því ekki það sama að klæða sig upp sem til dæmis söngkonan Miley Cyrus, sem sé ákveðinn karakter og einstaklingur, eða sem sögupersóna, eins og til dæmis Karíus í sögunni um Karíus og Baktus, en sjálf klæddist Inga þannig búning í dag. Það sé annað mál en að „klæða sig“ í kynþátt. 

Mynd með færslu
 Mynd: gag - RÚV
Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar.

Inga segir það breytast ár frá ári hvað þyki viðeigandi og hvað ekki í þessum málum. Að hennar mati sé samfélagið þó ekki að banna meira heldur sé fólk að verða meira meðvitað um það hvað er leiðinlegt að gera gagnvart öðrum. Þessi mál hafi verið mun minna í umræðunni hér á landi en til dæmis í Bandaríkjunum og Hollandi. „Mörg lönd í kringum okkur eru búin að taka þessa umræðu í nokkur ár á meðan við erum rétt aðeins farin að snerta á henni.“