Nokkrar umræður hafa verið um búning kennara á Ísafirði á svokölluðum maskadegi sem haldinn er hátíðlegur að kvöldi bolludags þar í bæ. Kennarinn klæddi sem upp sem Araba. Kennaranemum blöskraði valið á búningnum og sendu skólastjóra Grunnskólans á Ísafirði tölvupóst þar sem þeir gagnrýndu uppátækið. Fjallað er um málið á vef DV.
Inga Auðbjörg sagði í viðtali í Síðdegisútvarpinu í dag að val á búning sé ekki spurning um hvað megi eða megi ekki, heldur sé þetta spurning um að reyna að særa ekki aðra. „Það hlýtur að vera flestum okkar keppikefli að koma fallega fram við fólk og ég held að það sem er að gerast er að umræðan um það hvað fer fyrir brjóstið á fólki er meira að koma upp á yfirborðið,“ segir hún. Mál sem þessi séu í dag rædd á netinu þar sem fólk heyri önnur sjónarmið en aðeins sinna nánustu.
Hvar liggur línan, er þetta spurning um að vera ekki að niðurlægja aðra eða gera grín að viðkomandi? „Það er oft notað orðalagið að kýla upp fyrir sig en ekki niður fyrir sig. Ég held að línan liggi þar, er ég að taka einhvern menningarhóp, einhvern kynþátt, eitthvert þjóðerni og klæða mig í þá menningu eins og einhvern búning, segir Inga.