Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Nýjum smitum fækkar jafnt og þétt um nær allan heim

epa09016243 An elderly man sits in front a closed shop at a street in Hanoi, Vietnam, 16 February 2021. Hanoi has closed street eateries and cafes starting from 16 February, in oder to prevent the spread of the coronavirus disease (COVID-19) pandemic.  EPA-EFE/LUONG THAI LINH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Staðfestum, nýjum COVID-19 tilfellum fer jafnt og þétt fækkandi í heiminum. Samkvæmt gögnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar greindust 2,7 milljónir manna með kórónaveiruna sem veldur COVID-19 vikuna 8. - 14. febrúar; 16 prósentum færri en vikuna þar á undan. Á sama tíma dóu 81.000 manns af völdum sjúkdómsins svo vitað sé, eða tíu prósentum færri en í fyrstu viku febrúar.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skiptir heimsbyggðinni í sex svæði og á fimm þeirra fækkaði hvorutveggja smitum og dauðsföllum um minnst tíu af hundraði. Á einu svæði, Miðausturlöndum, fjölgaði smitum um sjö prósent. Nýliðin vika er fimmta vikan í röð sem nýjum smitum fer fækkandi í heiminum og eru þau nú nær helmingi færri en í vikunni sem lauk þann 4. janúar. Þá viku greindust rúmlega fimm milljónir manna með COVID-19. 

Tæplega 110 milljónir hafa greinst með kórónaveiruna sem veldur COVID-19 frá upphafi faraldursins og ríflega 2.4 milljónir dáið úr sjúkdómnum.