Nuddari í mongólsku tjaldi

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV/Landinn

Nuddari í mongólsku tjaldi

17.02.2021 - 09:43

Höfundar

Á bænum Hraukbæjarkoti í Kræklingahlíð í Eyjafirði stendur mongólskt tjald, eða yurt. Í tjaldinu er rekin nuddstofa og nuddarinn er frá Hollandi.

„Ég kom hingað til Íslands með manninum mínum í nokkurra daga ferð og við hrifumst bæði af landinu þannig að um leið og við komum heim til Hollands fórum við að gúgla og leita að vinnu á Íslandi," segir Marjolein van Groningen. 

Þau hjónin settust fyrst að á Akureyri en fluttu síðan út í sveit þar sem þau una hag sínum vel. „Það er útsýnið og plássið sem mér finnst frábært. Ég kem frá því landi í Evrópu þar sem eru flestir íbúar á ferkílómeter í landið þar sem eru fæstir íbúar á ferkílómeter og mér finnst það stórkostlegt."

Marjolein er geðhjúkrunarfræðingur og hefði getað fengið vinnu á því sviði en valdi frekar að fara í nuddið. „Mér fannst ég þurfa að læra íslensku áður en ég færi að starfa sem hjúkrunarfræðingur. Ég hafði hins vegar lært nudd í Hollandi og mér fannst það vera starf þar sem tungumálið skipti ekki öllu þannig að ég fór að vinna á stofu á Akureyri og síðan kom ég mér upp þessari aðstöðu í þessu fína tjaldi," segir Marjolein.