Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Komust ekki til viðgerða á Vopnafjarðarlínu

17.02.2021 - 08:14
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Ekki reyndist unnt að koma viðgerðarliði á Hellisheiði eystri þar sem skemmdir urðu á Vopnafjarðarlínu á sunnudag. Línumenn Landsnets sluppu naumlega undan snjóflóði á sunnudag þegar þeir voru að gera við slitna festingu. Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að vegna veðurs hafi ekki verið unnt að fljúga með viðgerðarmenn í þyrlu í gær.

„Staðan er ennþá þannig að Vopnafjörður er keyrður á varaafli. Við skoðuðum aðstæður í gær og það þótti ekki hættulaust að fara inn á svæðið á sleðum. Það stóð til að fljúga með þyrlu að bilanastaðnum en það gekk ekki upp. Þannig að við tökum stöðuna núna í morgunsárið og sjáum hvort eitthvað hefur breyst,“ segir Steinunn. Vopnafjörður hefur verið án rafmagns frá því á aðfaranótt sunnudags og varaafl hefur verið nýtt.

Hvað kom í veg fyrir að þyrlan kæmist?

„Í gær voru það aðstæður til flugs sem komu í veg fyrir það að það væri hægt að fara þarna upp,“ segir Steinunn.

Hún segir að aðstæður verði skoðaðar með morgninum.

„Ef það er hægt að fljúga verður flogið. Annars skoðum við hvort snjóalög leyfi að við förum upp með okkar fólk,“ segir Steinunn.