Hjúkrunarheimili: Núverandi stefna gjaldþrota

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kostnaður við uppbyggingu hjúkrunarheimila hljómar eins og gjaldþrota stefna segir Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir á öldrunardeild Landspítalans. Hann leggur til ýmsar breytingar á heilbrigðisþjónustu við eldra fólk, meðal annars að öldrunargeðdeild verði komið á fót og að heilsugæslan verði gerð að vöggu öldrunarþjónustunnar.

Heilsugæslan þarf að gera betur  

Pálmi talaði á fræðslufundi um velferð eldri borgara sem haldinn var í síðustu viku og í erindi hans kom fram að ýmislegt mætti betur fara þegar þjónusta við aldraða er annars vegar. Hann bendir á að hér á landi séu fá úrræði fyrir eldra fólk, aðallega heimahjúkrun og hjúkrunarheimili.  „Við þurfum að líta á og tala um það upphátt að heilsugæslan sé vagga öldrunarþjónustunnar.“

Heilsugæslan standi sig vel þegar ungbarnavernd og mæðravernd eru annars vegar og hafi staðið sig mjög vel í Covid-faraldrinum. Þjónustu við aldraða þurfi hins vegar að bæta. „Þeir eru á eftir. Ég er ekki að segja neitt á bak við þau. Ég hef sagt þetta við þau sjálfur og við höfum rætt þetta. Ég held að þau átti sig líka á að hér megi gera betur.“ 

Teymisvinna sé nauðsynleg í öldrunarþjónustu.  Læknar séu á heilsugæslustöðvunum og hjúkrunarfræðingar sjái um heimahjúkrun - sem er staðsett annars staðar. Öldrunarþjónusta eigi hins vegar að vera teymisvinna og hjúkrunarfræðingarnir ekki einir í heimahjúkruninni. 

 „Ég vildi sjá það ef að einstaklingur þiggur heimahjúkrun þá beri honum að sjá lækninn sinn á sex til átta vikna fresti. Ef viðkomandi er ófær um að sjá lækninn þá beri lækninum að koma heim til skjólstæðingsins. Og síðan að læknirinn og hjúkrunarfræðingarnir tali saman þannig að það myndist teymisvinna.“

Veikasti hópurinn þarf gjör-heilsugæslu

Einungis 5 til 10% af eldra fólki er mikið veikt að sögn Pálma. Tuttugu til þrjátíu prósent eru viðkvæmir einstaklingar og 50 til 60 prósent frekar hraustir. Veikasti hópurinn þurfi gjör-heilsugæslu. Því þurfi læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir að vinna saman og öldrunarlæknar styðji við bakið á þeim.  

Umræðan um fulla bráðamóttöku og gamalt fólk sem ekki er hægt að útskrifa vegna þess að ekki eru til hjúkrunarheimili til að taka við þeim er ekki ný. Pálmi segir að grípa þurfi inn í fyrr og fylgja málum vel eftir með teymisvinnu. „Og ef að fólk þarf að leggjast inn þá séu það ekki einu dyrnar inn á spítalann í gengum bráðamóttökuna. Ég tala stundum um að opna bakdyrnar hérna á Landakoti taka fólkið ferskt úr samfélaginu hér inn á öldrunarlækningadeild.“

Gjaldþrota stefna hins opinbera

Heimahjúkrun eins og hún er rekin núna kostar 3.7 milljarða á ári. Hjúkrunarheimilin, á árinu 2020, hafi kostað 43,4 milljarða fyrir samtals 2858 rými. Til að mæta þörfum þurfi að byggja eitt hjúkrunarheimili á ári á næstu 10 árum, sem myndi kosta 40 milljarða í byggingu og rekstur þeirra 14 milljarða til viðbótar.  „Mér finnst þetta hljóma bara eins og gjaldþrota stefna í raun og veru. Ég get ekki séð hvernig hið opinbera á að geta greitt þann kostnað.“    

Pálmi leggur til að hver og einn skjólstæðingur heimahjúkrunar fái málstjóra og auk þess þyrfti að taka upp umönnunarálag því oft er gríðarlegt álag á aðstandendur. 

Sárlega vantar öldrunargeðdeild

Síðan er það Landspítalinn. Þar er engin öldrunargeðdeild. Pálmi segir að hún hafi verið á forgangslista heilbrigðisráðuneytisins árið 2008 þegar hrunið kom en ekki komist aftur á dagskrá. Auk þess þurfi að efla öldrunarbæklunarlækningar og fjölga rýmum á líknardeild. 
 
„Þetta eru svona þrjú dæmi sem að spítalinn gæti gert. Og ég myndi segja að veikasti hlekkurinn í öldrunarþjónustunni núna eru öldrunargeðlækningarnar. Okkur vantar þær sárlega.“

Byggja endalaust ef ekkert er gert

Í samantekt leggur Pálmi til að heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustunnar, læknar komi inn í heimahjúkrunina, málstjóra verði komið á fót í heimahjúkrun, umönnunarálag verði tekið upp og gjör-heilsugæsla. Á sjúkrahúsinu þurfi að stofna öldrunargeðdeild, fjölga rýmum í líknarþjónustu og bæta öldrunarbæklunarlækningar. 

Ef eitthvað af þessu eða allar tillögurnar yrðu að veruleika, á Pálmi þá von á að full bráðamóttaka og gamalt fólk sem ekki er hægt að útskrifa vegna skorts á hjúkrunarheimilum verði liðin tíð?  
 
 „Það myndi bæta það. Ég ætla ekki að vera bjartsýnn að svona hlutir gerist einn tveir og þrír. Þannig að ég hugsa að þetta verði eitthvað sem við glímum dálítið við. Þetta er hægara sagt en gert en ef við gerum ekkert þá þurfum við bara að byggja endalaust eitt hjúkrunarheimili á ári.“ 
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV