Heimsóttu bændur í stað búða á öskudaginn

17.02.2021 - 20:26
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Öskudegi var fagnað víða um land í dag þrátt fyrir takmarkanir. Í Hörgársveit í Eyjafirði var öllum börnum smalað í rútu og ekið milli bæja í stað þess að heimsækja verslanir á Akureyri.

Fólk hvatt til að halda sig í nærumhverfi

Það viðraði nokkuð vel á þær fáu fígúrur sem vöppuðu um miðbæ Akureyrar í dag. Vegna aðstæðna voru dyr margra fyrirtækja lokaðar börnum í sælgætisleit. Í leiðbeiningum Almannavarna fyrir öskudaginn var fólk meðal annars beðið að fagna deginum í næsta umhverfi sínu. Það gerðu foreldrar barna í Þelamerkurskóla sem öku börnum um sveitina og sungu fyrir bændur. 

Bændur tóku börnunum vel

„Í ljósi aðstæðna í landinu var tekin ákvörðun um að krakkarnir í sveitinni færu ekki inn á Akureyri að syngja. Þá tók foreldrafélagið í skólanum sig til og setti saman svona frábæran dag fyrir okkur og bændur tóku okkur bara ofboðslega vel,“ segir Eydís Ösp Eyþórsdóttir, foreldri í Þelamerkurskóla. 

„Þau syngja ágætlega“

Eins og áður segir tóku bændur virkan þátt og voru einhverjir þeirra í gervi þegar börnin komu í heimsókn. Vinnukonan og húsfreyjan á Möðruvöllum í Hörgársveit voru þrátt fyrir allt ánægðar með sönginn. „Æji ég veit það ekki, þetta er ótrúlega eitthvað glatað. Þau er svo lítil og asnaleg eitthvað, en þau syngja ágætlega,“ sagði vinnukonan. 

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV