Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Heimilt að nota bíl Frú Ragnheiðar sem neyslurými

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Með bráðabirgðaákvæði í nýstaðfestri reglugerð heilbrigðisráðherra verður heimilt að nota annan bíla Frúar Ragnheiðar tímabundið sem neyslurými. Á síðasta ári var lögum breytt þannig að sveitarfélögum er heimilt að reka neyslurými með skaðaminnkun að leiðarljósi.

Neyslurými er samkvæmt skilgreiningu laga um ávana- og fíkniefni verndað umhverfi sem heimilar 18 ára og eldri að sprauta slíkum efnum í æð undir eftirliti starfsfólks, þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna.

Rauði krossinn í Reykjavík hefur rekið Frú Ragnheiði frá árinu 2009, sem er til þess hugsuð að bjóða jaðarsettum hópum skaðaminnkandi heilbrigðis- og nálaskiptiþjónustu.

Heimild ráðuneytisins gildir uns varanlegt neyslurými hefur verið opnað. Það er embætti Landlæknis sem veitir sveitarfélögum heimild til stofnunar og reksturs slíkra rýma, að uppfylltum skilyrðum laga og reglugerða.

Sveitarfélögum er skylt að gefa landlækni skýrslu um reksturinn ár hvert þar sem tilgreint verði meðal annars hve margir leiti þangað, aldur og kyn þeirra og hve oft lyf við ofskömmtun ávana- og fíkniefna hafi verið gefin.