Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hafnar „gyðingahaturshommafælnistimpli“

17.02.2021 - 14:40
Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, fór fram á það á Alþingi í dag að forsætisnefnd og forseti Alþingis taki á orðræðu þingmanna sem hann segir ekki líðandi. Þar vitnaði Þorsteinn í umræðu frá kvöldinu áður þegar rætt var frumvarp félagsmálaráðherra um móttöku flóttafólks og innflytjendaráð.

Beindi hann orðum sínum til Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, sem sér ekki ástæðu til að biðjast afsökunar. Helgi Hrafn segir orðræðu Miðflokksins til þess fallna að auka útlendingaandúð hér á landi.

„Í gærkvöldi, herra forseti, þá var það þannig að popúlisti úr einstefnuflokknum gat ekki staðist mátið að hefja upp sama söng og hinn siðprúði félagsmálaráðherra sem er nýber að því að hafa farið á svig við lög um ráðherraábyrgð og þingsköp blandaði sér í hópinn til þess að mála þennan hræðilega þingflokk þessum „gyðingahaturshommafælnistimpli“ sem er algjörlega óþolandi,“ sagði Þorsteinn á Alþingi í dag.

Helgi Hrafn kvaðst ekki sjá eftir stöku orði sem hann hafi látið falla í gær né í dag. „Það sem ég sagði í gær var það að viljandi eða óviljandi, meðvitað eða ómeðvitað, þá er orðræða Miðflokksins í málinu, sem við vorum að ræða hér í gær, og öðrum málum sem varða útlendinga til þess fallin að auka útlendinga andúð í landinu,“ sagði Helgi Hrafn í dag. Hvort sem það væri ætlun Miðflokksins eða ekki, þá beri hann ábyrgð á því, sagði þingmaður Pírata. 

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚv