Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Eftirlit í Hlíðarfjalli eftir ábendingar um drykkjuskap

17.02.2021 - 17:00
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Lögreglan hefur verið með sérstakt eftirlit við Hlíðarfjall undanfarnar tvær helgar eftir að borist hafa ábendingar um áfengisnotkun í fjallinu. Voru samtals 300 bílar stoppaðir og ástand ökumanna kannað. Enginn þeirra reyndist vera undir áhrifum.

Aukið eftirlit eftir ábendingar

Uppselt hefur verið í Hlíðarfjall, ofan Akureyrar, undanfarnar helgar og ekkert lát virðist vera á vinsældum. Til marks um það hrundi miðasölukerfi skíðasvæðisins í upphafi vikunnar þegar miðar fyrir næstu tvær vikur fóru í sölu. Fréttastofu barst ábending um að töluvert hefði borið á áfengisdrykkju í fjallinu um liðna helgi en tekið skal fram að engin bar er á svæðinu. Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra staðfestir að slíkar ábendingar hafi einnig borist lögreglu. Eftirlit var í kjölfarið aukið.

Fólk að staupa sig og jafnvel að taka myndir um leið

„Lögreglunni hafa borist ábendingar um að vart verði við áfengisnotkun hjá skíðafólki í Hlíðarfjalli. Þar sé fólk að staupa sig og jafnvel að taka myndir um leið og setja á samfélagsmiðla. Af þessu tilefni var ákveðið að sinna sérstöku eftirliti með ökumönnum sem voru að koma úr Hlíðarfjalli,“ segir Jóhannes í skriflegu svari. 

„Enginn tekinn fyrir ölvun við akstur“

Hann segir að þann 6. febrúar hafi 200 bílar verið stöðvaðir og ástand ökumanna kannað. Viku síðar voru 100 bílar stöðvaðir. „Enginn þeirra reyndist vera undir áhrifum en í viðtali við ökumennina fékkst staðfest að vart hafði orðið við áfengisneyslu á svæðinu,“ segir Jóhannes. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hlíðarfjall.is - RÚV