Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Áfram útgöngubann í Hollandi

epa09017060 Mounted police patrol in the city center in Rotterdam, The Netherlands, 16 February 2021. The curfew will remain in effect for the time being. The Court of Appeal in The Hague has suspended the court's decision in summary proceedings about its lifting. The court acted upon the request of the State, which has appealed against the verdict.  EPA-EFE/ROBIN UTRECHT
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Áfrýjunardómstóll í Haag sneri í gærkvöld dómi sem kveðinn var upp fyrr í gær þess efnis, að útgöngubann stjórnvalda vegna COVID-19 væri ólöglegt og skyldi aflétt þegar í stað. Fjölskipaður áfrýjunardómstóllinn ákvarðaði að útöngubannið skuli gilda áfram fram á föstudag hið minnsta, en þá fer fram aðalmeðferð í máli samtakanna Wiruswaarheid gegn stjórnvöldum.

Samtökin kærðu fjölda sóttvarnaaðgerða stjórnvalda,  þar á meðal útgöngubannið,. Það var sett á 23. janúar og framlengt í síðustu viku til 2. mars að minnsta kosti. Samkvæmt því er landsmönnum óheimilt að vera utan dyra milli níu á kvöldin og hálf fimm að nóttu.

Ný lög eiga að tryggja lagagrundvöll útgöngubanns

Mark Rutte, forsætisráðherra, fagnaði úrskurði áfrýjunardómstólsins. Hann segist þess fullviss að útgöngubannið fái að standa áfram, enda hafi það sannað gildi sitt. Meirihluti neðri deildar hollenska þingsins samþykkti í gærkvöld frumvarp sem ætlað er að tryggja lagagrundvöll útgöngubannsins. Frumvarpið fær flýtimeðferð í þinginu og verður að líkindum tekið til umfjöllunar í efri deild þess í dag.

Útgöngubanni hafði ekki verið lýst yfir í Hollandi síðan í síðari heimsstyrjöldinni. Það mætti harðri andstöðu meðal landsmanna og leiddi til verstu óeirða í landinu í áratugi.