Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

22% fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi

Mynd með færslu
 Mynd: Fréttir
Tilkynningar um heimilisofbeldi, til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, eru 22 prósentum fleiri það sem af er þessu ári, en að meðaltali á sama tíma síðustu þrjú ár. Alls bárust 75 tilkynningar um heimilisofbeldi í janúar, til samanburðar voru þær 65 í janúar í fyrra. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglunnar.

Mikil fjölgun var á skráðum kynferðisafbrotum í janúar og segir í skýrslunni að það megi einna helst rekja til aðgerða lögreglunnar í vændismálum en undanfarnar vikur hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verið í sérstökum aðgerðum tengdum mansali og er vændi ein birtingarmynda þess.

Það sem af er árinu hafa borist um 18 prósent fleiri tilkynningar um kynferðisafbrot en að meðaltali á sama tíma síðustu þrjú ár. 68 slík voru skráð hjá embættinu í janúar.