Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vinnan er kjarninn í fagurfræði hafnanna

Mynd: Menningin / RÚV

Vinnan er kjarninn í fagurfræði hafnanna

16.02.2021 - 13:27

Höfundar

Hulda Rós Guðnadóttir hefur tekið yfir A-sal Hafnarhússins og fyllt hann af kössum undan frosnum fiski og komið fyrir vídeóinnsetningu af löndunarmönnum við störf.

Sýningin nefnist Werk - Labor Move. Innsetningin er þriggja rása vídeóverk sem Hulda Rós tók upp í í Þýskalandi árið 2016. Þá komu löndunarmenn frá Reykjavík til Leipzig og unnu fyrir opnum tjöldum í listrými þar í borg og gerðu það sama og þeir gera á höfninni, tæma frystitogara á 48 tímum. 

Werk - Labor Move er hluti af seríunni Keep Frozen, rannsóknarverkefni sem snýst um hafnarsvæði og Hulda Rós hefur unnið að í rúman áratug. Serían hefur getið af sér sýningar, bækur og kvikmynd.  

„Ég komst að þeirri niðurstöðu á sínum tíma að kjarninn í fagurfræði hafnanna er vinnan sem þar fer fram. Að leggja svona mikið á sig í líkamlega vinnu finnst mér mjög virðingarvert. Fólk sem leggur svona mikið á sig skapar mikið virði fyrir samfélagið sem við hin njótum síðan góðs af. Ég vildi miðla því, beina fókusnum að vinnunni og vinna náið með strákunum, ekki bara sem viðfangi heldur skapandi einstaklingum.“ 

Hulda Rós Guðnadóttir hefur tekið yfir A-sal Hafnarhússins og fyllt hann af kössum undan frosnum fiski og komið fyrir vídeóinnsetningu af löndunarmönnum við störf.
 Mynd: Menningin - RÚV
Úr verkinu Werk - Labor Move.

Hulda Rós er með bakgrunn í mannfræði og er kvikmyndagerðarkona. Hún segist vinna sýningar eins og hún skrifi handrit.

„Ég hugsa þetta þannig að þegar áhorfendur ganga inn inn þá verði þetta yfirþyrmandi.  Það er yfirþyrmandi þegar þú opnar lestarlúguna á frystitogara, endalaust mikið af kössum. Miða við fjármagnið sem við höfðum þá kom  fyrir yfirþyrmandi magni af kössum sem vonandi gefur fólki þessa örvæntingartilfinningu.“

Menningin ræddi við Huldu Rós. Horfa má á innslagið hér að ofan.