Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rýming og hættustig á Seyðisfirði

16.02.2021 - 15:06
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnadeild Ríkislögregl - RÚV
Hættustigi hefur verið lýst yfir á Seyðisfirði vegna hættu á skriðuföllum, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi. Spáð er ákafri úrkomu á Austfjörðum í kvöld og að uppsöfnuð úrkoma á Seyðisfirði verði jafnvel yfir 60 mm, sem leggst við 70 mm úrkomu og leysingar síðan á laugardag.

Reiknað var með það það myndi byrja að rigna upp úr hádegi í dag en mestri ákefð er spáð milli klukkan 18:00 og miðnættis í kvöld. Hitastig er núna yfir frostmarki í fjallahæð og talsverð leysing hefur verið síðan um helgina.

Fjöldahjálparstöð í Herðubreið verður opin eins og þurfa þykir og þjónustumiðstöð almannavarna verður áfram opin í Herðubreið á Seyðisfirði. Hægt er að senda inn fyrirspurnir á netfangið [email protected] og hringja í 839 9931 utan opnunartíma. 

Eftirfarandi hús verða rýmd: 

  • Öll hús við Botnahlíð
  • Múlavegur 37
  • Baugsvegur 5
  • Austurvegur 36, 38b, 40b, 42, 44, 44b, 46b, 48, 50, 52, 54 og 56
  • Fossgata 4, 5 og 7
  • Múli, Hafnargata 10, 11, 12, 14, 15, 16b og 18c

Rýmingin er í varúðarskyni, að því er segir í tilkynningunni, þar sem óvissa er um stöðugleika hlíðanna í Botnabrún eftir skriðuföllin í desember í fyrra. Rýmt er við minni rigningu en áður þar til meiri reynsla fæst á það hve stöðug hlíðin er.

Staðan verður endurskoðuð á morgun en spáð er kólnandi veðri þá og á fimmtudag verður líklega komið frost til fjalla.