Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Óbreyttur borgari lést í árás á flugstöð í Írak

16.02.2021 - 04:37
epa09015017 Shattered glass among damages caused by a rocket attack, at the airport of Erbil, Iraqi Kurdistan, Iraq, 15 February 2021. Eight rockets targeted Erbil airport in northern Iraq's Kurdistan region, one of which hit an apartment complex near the US consulate. Five people were wounded and many shops damaged, security officials said.  EPA-EFE/GAILAN HAJI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Einn lét lífið og sex særðust í sprengjuárás á flugstöð í Kúrdistan i´Írak í gærkvöld. Sá sem lést var erlendur starfsmaður einkaverktaka. Einn hinna særðu er bandarískur hermaður. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að árásarmennirnir verði látnir sæta ábyrgð.

Hann talaði við Masrour Barzani, forsætisráðherra héraðsstjórnar Kúrdistan, um árásina. Blinken lofaði honum aðstoð við rannsóknina og eftirmála hennar. 

Heimildir AFP fréttastofunnar herma að minnst þremur flugskeytum hafi verið skotið á flugvöllinn við Arbil. Erlendar hersveitir nota þennan flugvöll sem bækistöðvar í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki. Tvö flugskeyti hæfðu íbúðahverfi í útjaðri Arbil. Öryggissveitir voru kallaður út til að umkringja flugvöllinn og þyrlur vour á sveimi við borgarmörkin að sögn AFP fréttastofunnar.

Þetta er fyrsta árásin í garð vestrænna hermanna eða bækistöðva þeirra í Írak í nærri tvo mánuði. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV