Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ný slóvensk ópera

Mynd með færslu
 Mynd: Marta Tiberiu - Slóvenska óperan í Maribor

Ný slóvensk ópera

16.02.2021 - 21:10

Höfundar

Í tilefni af 100 ára afmæli Maribor-óperunnar í Slóveníu á liðnu ári, 2020, var pöntuð ný ópera hjá slóvenska tónskáldinu Ninu Šenk. Úr varð óperan „Marpurgi“ sem var frumsýnd í Slóvenska þjóðleikhúsinu í Maribor þar sem óperan hefur átt aðsetur sitt frá því að fyrsta sýning hennar fór fram árið 1920. Óperan verður flutt á Óperukvöldi útvarpsins mið. 17. febrúar kl. 19.00.

Nina Šenk er fædd 1982. Hún stundaði fyrst tónlistarnám í Ljubljana, höfuðborg Slóveníu, og árið 2004 fékk hún fyrstu verðlaun tónlistarhátíðarinnar Young Euro Classic í Berlín fyrir fiðlukonsert sinn nr.1. Síðar stundaði Nina Šenk nám í Carl Maria von Weber-tónlistarháskólanum í Dresden og loks í München, og tók meistaragráðu frá Tónlistarháskólanum þar 2008. Sama ár fékk hún kammertónlistarverðlaun Vorhátíðarinnar í Weimar, „Weimarer Frühlingstage“, fyrir verkið „Movimento fluido“. Árið 2018 pantaði Proms, sumartónlistarhátíð BBC, verk frá henni og var það í fyrsta skipti sem verk eftir slóvenskt tónskáld var pantað fyrir Proms.

Saga Marborgar

Óperan er byggð á sögulegri skáldsögu, „Marpurgi“, sem út kom 1985, en höfundur hennar var skáldkonan Zlata Vokač-Medic. Igor Pizon hefur samið texta óperunnar upp úr skáldsögunni. Sagan fjallar um tímaskeið í sögu borgarinnar Maribor. Borgin hét áður Marpurg, þ.e.a.s. Marborg og heiti óperunnar merkir í rauninni „Marborgarar“. Óperan gerist á árunum 1455 til 1456 og fjallar meðal annars um vald hins trúarlega Rannsóknarréttar og um gyðingaofsóknir miðalda. Nina Šenk leggur áherslu á það að óperan muni verða í tveimur hlutum, hér er aðeins um fyrri hlutann að ræða, en síðar gerir Nina ráð fyrir að semja seinni hlutann. Þessvegna er ekki um endanleg sögulok að ræða í óperunni og hún er styttri en venja er um óperur, aðeins rúmlega klukkutími.

Skáld í vanda

Í upphafi óperunnar er skáldið Matthías að reyna að yrkja nýtt ljóð sem til stendur að flytja frammi fyrir borgarbúum, en ekkert gengur, orðin þyrlast um í höfði hans án þess að hann geti fest hönd á þeim. Hann sér Marborg eins og í sýn. Skáldið Jani tekur sig út úr hóp borgarbúa, hann lofar fegurð borgarinnar og landslagsins sem umlykur hana, en spáir því að með auknu valdi Rannsóknarréttarins muni renna upp erfiðir tímar fyrir frjálsa hugsun í borginni, einkum fyrir þá sem ekki séu kristinnar trúar. Matthías heimsækir lækninn Hannes og stærir sig af því að sér hafi verið boðið að koma á skáldaþingið í Regensborg. Hann kvartar líka undan því við Hannes að sér gangi illa að yrkja. Hannes minnist á það að Jani hafi líka verið boðið á skáldaþingið, en Matthías er fullur afbrýðissemi í garð Janis þar sem hann grunar að hann sé sér fremri sem skáld.

Ofsóknir Rannsóknarréttarins

Þegar Matthías er lagður af stað á skáldaþingið í Regensborg mætir hann fulltrúa keisarans. Fulltrúinn fer að yfirheyra hann um Gyðingastúlku sem hann segir að hafi verið leynilega flutt til Marborgar. Hann leggur hart að Matthíasi að láta sig hafa nöfn frjálslyndra manna í borginni, öðruvísi verði borgin ekki hreinsuð af synd. Matthías lætur loks undan þrýstingnum og nefnir nafn Janis, keppinautar síns. Þrúgaður af samviskubiti heldur hann áfram til Regensborgar. Síðar segir Hannes Matthíasi að Jani hafi fundist dáinn. Matthías kvelst af sektarkennd þar sem hann grunar að hann hafi orðið valdur að dauða Janis. Hannes kryfur líkið og kemst að því að Jani dó af völdum grimmilegra pyntinga. Öll borgin syrgir dauða skáldsins.

Mun ástin sigra?

Næsta atriði gerist nokkrum mánuðum eftir dauða Janis. Heima hjá konu að nafni Dina er Mirjam að syngja vögguvísu við litla veika stúlku, Sariku, en Sarika er einmitt Gyðingastúlkan sem fulltrúinn yfirheyrði Matthías um. Dina og Mirjam fara með Sariku til læknisins Hannesar og hann gefur henni lyf. Mirjam trúir honum fyrir því að Sarika sé ekki frá Marborg, foreldrar hennar hafi verið brenndir á báli og klaustur nokkurt hafi falið Dinu að annast um barnið. Hannes gleðst yfir því að borgin skuli hafa skotið skjólshúsi yfir Sariku og Mirjam og álítur að það sé merki um það að kærleikurinn geti sigrað. Þau Mirjam verða ástfangin hvort af öðru og sjá fyrir sér framtíð sína saman með Sariku. Matthías fær af þessu innblástur fyrir ljóð sitt, hann ætlar að yrkja um ástina.

Vorhátíð við ána Drövu

Apríl er kominn og vorhátíð er haldin við ána Drövu sem rennur í gegnum Marborg. Borgarbúar koma saman og fagna vorinu á árbakkanum. Þeirra á meðal eru Dina, Hannes og Sarika litla, sem gefur Matthíasi blóm, en hann hefur nú loksins náð takmarki sínu í ljóðlistinni og fengið viðurkenningu borgarbúa. En Mirjam er að fara frá borginni, hún hefur gert samning við fulltrúa keisarans um það að yfirgefa borgina gegn því að Sarika fái að vera í friði. Í huganum kveður Mirjam borgina fallegu við Drövu og íbúa hennar. 

Flytjendur í sýningu Slóvenska þjóðleikhússins í Maribor:

Miriam: Sabina Cvilak.

Hannes: Jaki Jurgec.

Mathias: Martin Sušnik.

Jani: Bogdan Stopar.

Fulltrúinn: Sebastijan Čelofiga.

Dina: Irena Petkova.

Óperukór Slóvenska þjóðleikhússins í Maribor syngur,

kórstjóri er Zsuzsa Budavari-Novak.

Sinfóníuhljómsveit Slóvenska þjóðleikhússins í Maribor leikur,

stjórnandi er Simon Krečič.

Hljóðritunin var gerð 10. október á liðnu ári.

Mynd: Úr sýningu Maribor-óperunnar á "Marpurgi".

Ljósmyndari: Marta Tiberiu.