Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Lokun spilakassa er ekki lækning á spilafíkn“

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Þór Þorsteinsson, formaður Landsbjargar, segist í samtali við fréttastofu á margan hátt geta tekið undir málstað Samtaka áhugafólks um spilafíkn en segir erfitt að mæta tilfinningaherferð með rökum.

Þór segir Landsbjörg vera með allt sitt uppi á borðum og að í um áratug hafi staðið yfir viðræður við stjórnvöld um að kerfinu í kringum spilakassa verði breytt.

Mat Þórs er að stjórnmálamenn sjái sér ekki hag í því að ræða um spilakassa og spilafíkn og því lendi málefnið til hliðar og utan við alla umræðu. 

Samtök áhugafólks um spilafíkn reka nú herferð gegn þeirri ákvörðun að spilakassar verði opnaðir að nýju eftir að slakað var á reglum í kórónuveirufaraldrinum.

Sömuleiðis kölluðu samtökin eftir afstöðu menntamálaráðherra til reksturs spilakassa til fjáröflunar fyrir Háskóla Íslands, í opnu bréfi dagsettu 26. janúar. 

Tvö fyrirtæki reka spilakassa á Íslandi, Íslandsspil og Happdrætti Háskóla Íslands. Rauði krossinn, Landsbjörg og SÁÁ ráku Íslandsspil í sameiningu um árabil uns síðastnefndu samtökin tilkynntu úrsögn sína úr samvinnunni síðla seinasta árs.

Þór Þorsteinsson segir nú unnið að lagalegum þáttum varðandi brotthvarf SÁÁ úr Íslandsspilum. Hann segir Landsbjörgu ekki sækjast eftir því að reka spilakassa en samtökin þarfnist fjármagns til að sinna sínum verkefnum.

Hann kveðst gjarna vilja hafa Samtök áhugafólks um spilafíkn í liði með sér í þeim ásetningi sínum að taka upp aðgangs- eða spilakort til að takmarka hve háa fjárhæð hver og einn getur spilað fyrir.

Þeirri aðferð hafi verið beitt á hinum Norðurlöndunum með góðum árangri. Samtökin hafa jafnframt farið fram á að spilakort verði tekin upp á Íslandi. Til að spilakort virki þurfa þau að nýtast í öllum spilakössum að því er fram kemur á vef Landsbjargar. 

„Við viljum ekki peninga frá þeim sem eru haldnir spilafíkn og við förum fram á að stjórnvöld breyti leikreglunum, “ segir Þór. Spilakassar segir hann vera þá leið sem stjórnvöld hafi farið til að styrkja starfsemina og með því að hætta væru samtökin að gefa í skyn að þau þyrftu ekki á þessu fjármagni að halda.

„Samkeppni er á markaðnum og ef Landsbjörg drægi úr sinni aðkomu yrðu samtökin undir í þeirri baráttu,“ segir Þór og bætir við að hann telji lokun spilakassa ekki vera lækningu á spilafíkn. Hann segir fimm milljarða króna fara í gegnum spilamennsku á netinu og í ólöglegum spilaklúbbum.

Að sögn Þórs hafa lokanir spilakassa Íslandsspila í faraldrinum sennilega kostað Landsbjörg 90 milljónir króna sem hann segir gríðarlegt högg. „Það þurfti að skera niður og hætta ýmsum verkefnum.“ 

Leitað var álits fleiri sem að rekstri spilakassa koma og verða þau birt um leið og þau berast.