Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hundrað Seyðfirðingum í 46 húsum gert að rýma

16.02.2021 - 16:09
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Um 100 íbúar á Seyðisfirði í tæplega 50 húsum þurfa að rýma heimili sín í öryggisskyni vegna skriðuhættu. Yfirlögregluþjónn segir að rýmingin gildi að minnsta kosti fram yfir hádegi á morgun.

Áköf úrkoma næsta sólarhring

Hættustigi almannavarna hefur aftur verið lýst yfir á Seyðisfirði. Það var lækkað í óvissustig í gær. Um helgina var hættustig vegna snjóflóðahættu. Nú er skriðuhætta og spáð ákafri úrkomu í kvöld og í nótt á Seyðisfirði. Úrkoma gæti farið yfir 60 millimetra sem leggst ofan á 70 millimetra úrkomu frá því á laugardag og miklar leysingar. 

„Þetta eru 100 íbúar í um 46 húsum. Þessi rýming er á því svæði sem var rýmt áður í desember. Þetta er gert í öryggisskyni að mati Veðurstofu. Á meðan er verið að kanna mæla og virkni þeirra,“ segir Kristján Ólafur Guðnason yfirlögregluþjónn á Austurlandi.

Vatnsborð hækkar en engin hreyfing á hlíðinni

Vatnsborð í borholum í Neðri-Botnum, sem stóru skriðurnar féllu úr fyrir jólin, sýna að vatnsborð hefur hækkað í leysingunum um helgina. Ekki hafa mælst markverðar hreyfingar á GPS-mælum samkvæmt ofanflóðavakt Veðurstofunnar. Rýmingar verða endurskoðaðar á morgun en búist er við hægt kólnandi veðri á miðvikudag og á fimmtudag verður aftur komið frost til fjalla.

Rýming fram yfir hádegi á morgun

„Allir voru upplýstir um að þetta gæti gerst og allir tekið þessu vel, við vonum bara það besta. Að þetta veðri bara ein nótt og ekki fleiri. Staðan verður tekin aftur á Veðurstofunni eftir hádegið á morgun, mögulega ekki fyrr en seinni partinn,“ segir Kristján Ólafur jafnframt.

Rýming tekur gildi klukkan 19 í kvöld og á við jaðar byggðarinnar sunnanmegin í bænum.