Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Umfang skipulagðrar glæpastarfsemi eykst

Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segist ekki geta fullyrt um að skotárásin í Rauðagerði í Reykjavík um helgina tengist uppgjöri í undirheimunum. Karlmaður á fertugsaldri var skotinn til bana og maður á sama aldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Karl Steinar segir að embættið aðstoði lögregluna á höfuðborgarsvæðinu við rannsókn málsins eins og jafnan í málum með tengingar út fyrir landsteinana.

Umsvif erlendra glæpahópa að aukast

Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá árinu 2019 segir að umsvif erlendra glæpahópa í fíkniefnaviðskiptum fari vaxandi og þar séu á ferð menn sem ýmist flytjist hingað eða komi tímabundið.

Vitað sé að hópur erlendra afbrotamanna sé stórtækur á sviði kókaínsölu á Íslandi. Í skýrslunni segir að að náttúruhamförum frátöldum sé skipulögð glæpastarfsemi alvarlegasta ógn við samfélag og einstaklinga á Íslandi. Þessi þróun hafi haldið áfram.

„Já, ég held því miður að við verðum að staðfesta það að þessi þróun hefur haldið áfram,“ segir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra. „Það sem við erum kannski að sjá er að við erum með á Íslandi einstaklinga frá ýmsum löndum. Í einhverjum tilvikum eru þjóðlöndin að vinna sérstaklega saman sem hópur, í öðrum tilvikum er blöndun og svo eru Íslendingar þarna inni á milli og margir af þessum einstaklingum koma frá mörgum löndum og hafa verið hér í talsverðan tíma.“

Umfangið mikið á íslenskan mælikvarða

Brotastarfsemin sé margs konar, fíkniefnaviðskipti eru áberandi, en einnig ýmiss konar svikastarfsemi. Karl Steinar segir að reynt hafi verið að átta sig á umfanginu en það sé erfitt. Hann vill ekki nefna neinar tölur.

„En það er alveg ljóst að á okkar mælikvarða er þetta talsvert sem er hér á landi.“

Það sé breytilegt hvaðan þetta fólk komi, en lönd í austanverðri Evrópu séu áberandi.

Fjármunir settir í að styrkja lögregluna

Karl Steinar segir að lykilatriði fyrir lögregluna sé samstarf, bæði innanlands og utan og það sé nokkuð gott. Í skýrslu greiningardeildarinnar frá 2019 segir að geta lögreglunnar til að takast á við þetta sé lítil.

„Síðan þá hefur margt gott gerst, að mínu mati, vegna þess að það hafa meiri fjármunir verið settir í að styrkja lögregluna, sérfræðiþekkinguna, eins til dæmis í peningaþvættismálum, því að öll þessi starfsemi er í grunninn hagnaðardrifin. Það er verið að reyna að finna leiðir til að koma ólöglegum fjármunum í einhverja löglega starfsemi og þarna var kannski styrkur lögreglu ekki nægilega mikill. Það er búið að bregðast við því.“

Mögulega var  skotárásin í Rauðagerði tengd uppgjöri í undirheimunum. Karl Steinar segist ekki geta fullyrt neitt um það. „Sé það hins vegar staðan, að við séum að tala um eitthvað slíkt, þá eru það mjög alvarleg skilaboð og þá verðum við að horfa aðeins til Norðurlandanna þar sem slíkt hefur verið til staðar. Þannig að ég held að við verðum að skoða það mjög vandlega ef að það verður það sem kemur á daginn.“