Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Um stórar byltingar í litlu þorpi

Mynd: wikicommons / wikicommons

Um stórar byltingar í litlu þorpi

15.02.2021 - 12:28

Höfundar

Við upphaf síðustu aldar söfnuðust listamenn saman í þorpinu Ceret við rætur Pýrenafjallanna. Picasso og Braque voru meðal þeirra sem umbyltu listasögunni með hversdagslegu drasli.

Í síðustu viku rifjaði ég upp sögu augans sem Georg IV, prinsinn af Wales, sendi sinni heittelskuðu í pósti árið 1785. Auga þetta var fagurlega málað á agnarsmáan striga og var í raun ástsjúkt augntillit tileinkað heitmey prinsins og engri annari.

Slík ástaraugu komust skyndilega í tísku um þetta leyti en hurfu jafn skyndilega og þau birtust þegar ljósmyndin ruddi sér til rúms, og féllu í gleymskunnar dá þar til safnarar fóru að veita þeim athygli á síðustu öld. Ástaraugun eru ein af mörgum öngum sem þessi spegill sálarinnar hefur skapað í listasögunni víðsvegar um heiminn. En á svipuðum slóðum í tíma og rúmi, eða um hundrað og fimmtíu árum síðar í Mið-Evrópu, voru það súrrealistarnir sem köfuðu ofan í merkingu augnanna, bæði í máli og myndum.

Í myndum voru augu þeirra oft og tíðum klippt og skorin út, stóðu ein og sér líkt og ástaraugun, límd, hoggin út, máluð eða mynduð og sögðu þannig nýja sögu, sögu sem ekki var að finna á hefðbundnum stað augans. Ætli sundurskorið augað úr kvikmynd Bunuels sé ekki með þekktari augum þessa tíma, en augun er einnig að finna í verkum, Míró, Max Ernst, Hönnu Hoch, Magritte, Man Rey og Claude Cahun, svo fá séu nefnd.

Ástaraugun minna um margt á þessi einstæðu augu súrrealistanna, enda eru þau nútímaáhorfandanum hálfsúrrealísk, en þau minna líka á klippimyndirnar sem undanfarar súrrealistanna gerðu til að hrista upp í hefðbundnum myndfletinum. Þessi tenging á sérstaklega við um ástaraugun sem fljóta ekki ein og sér á striga heldur þau sem eru umkringd útskornu tré eða fílabeini, eðalsteinum og perlum.  Slík ástaraugu minna um margt á klippimyndir framúrstefnulistamanna sem settu saman hvers kyns hversdagslega hluti til að segja sögur á nýjan máta. Og þessi nýja aðferð framúrstefnunnar við að segja frá, í formi klippimyndar, átti stóran þátt í að breyta gangi listasögunnar við upphaf módernismans, í vestrænni myndlist. Klippimyndin sem slík, það að klippa og líma saman myndir til að segja sögu, er auðvitað ævafornt handbragð og upphaf þess hefur verið rakið til Kína, en flestum listfræðingum kemur saman um að upphaf klippimyndarinnar, þeirrar er hafði stórkostleg áhrif á þróun vestræns myndmáls á 20 öld, megi rekja til samstarfs tveggja listamanna, þeirra George Braque og Pablo Picasso. Og í þeirri sögu leikur lítið þorp í Pýreneafjöllum nokkuð stórt hlutverk.

Ceret er lítill bær við rætur Pýreneafjallanna, í nokkurri hæð yfir sjávarmáli, en þó ekki nema um 50 km frá strönd Miðjarðarhafsins. Í hlíðunum umhverfis bæinn vaxa kirsuberjatrén sem þorpið dregur nafn sitt af, og gefa hlíðunum bleikan lit að vori. Í fögrum aldagömlum miðbænum er að finna allt sem franskir smábæir bjóða upp á, torg til að setjast niður á, veitingastað, kaffihús, bakarí og pósthús. Og þrátt fyrir smæðina er þar líka að finna litla tónleikastaði og nokkuð gott listasafn með verk eftir þekkta evrópska framúrstefnulistamenn. Ástæðan er sú að listamenn hafa lengi vel dregist að þorpinu sem býður upp á einangrun ekki langt úr alfaraleið og fegurð til allra átta.

Í upphafi ársins 1910 ákvað hópur katalónskra listamanna að flytjast til fjalla og varð Ceret fyrir valinu. Í hópnum var Manolo Hugué, skúlpúristi frá Barcelona og vinur Picasso. Góða lífið í fjöllunum barst spænskum vinum í París til eyrna og ári síðar kom Picasso til að eyða sumrinu í kirsuberjaþorpinu. Hann var ekki einn. Í för með honum voru ástkona hans, Fernande Olivier, og franski málarinn George Braque. Picasso átti eftir að dvelja þarna fleiri sumur með með fleiri listamönnum sem síðar hafa komist á spjöld sögunnar. Margir flúðu til fjalla þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út, og sumir sneru aldrei til baka. Þegar síðari heimsstyrjöldin svo skall á fluttu fleiri listamenn til Ceret, þeirra á meðal Tristan Tzara og Marc Chagall.

En sumarið 1910 var það kuldinn og fátæktin í borginni sem fékk Picasso og félaga til að halda til fjalla. Félaga sem þá þegar voru í mikilli tilraunamennsku með málverkið og orðnir þekktir í París sem kúbistarnir. Í Ceret var lífið einfaldara og ódýrara og maturinn og loftið betra. Fjallalífið snerist þó ekki um einangrun í tilfelli ungu listamannanna Picasso og Braque, sem hvöttu hvor annan áfram í tilraunamennsku, ekki bara við að brjóta upp myndflöt málverksins í anda kúbismans, heldur líka  við að víkka hann út með hversdagslegum hlutum.

Picasso voru hlutir úr hversdeginum alla tíð hugleiknir í sinni sköpun. Til eru klippur úr dagblöðum frá 1899 sem hann safnaði og einhverjar þeirra límdi hann inn á skissur svo hugurinn fór snemma að leita út fyrir málverkið. En það var ekki fyrr en í Ceret sem þeir félagar fóru að líta á þessar vinnuaðferðir sem listaverk í sjálfu sér. Þeir byrjuðu á að líma stafi klippta út úr dagblöðum inn í málverk. Ekki bara til að vekja athygli á dagblöðum, sem þeir höfðu dálæti á, heldur til að draga athygli að striganum, sem tvívíðum hlut.

Sagan segir að sumarið 1912 hafi Braque verið að vinna að málverki af gítar þegar hann rambaði inn í járnvöruverslun þar sem veggfóður og hillupappír með ýmiss konar áprentuðu mynstri var til sölu. Braque keypti pappír með áprentaðri viðaráferð, og þegar heim var komið límdi hann pappírinn á gítarinn í málverkinu. Í stað þess að mála viðinn notaði hann veggfóður.

Og þessi hversdagslega athöfn er ein af stóru stundum listasögunnar, þó svo að ungi maðurinn sem fékk hugmynd í járnvöruverslun í fjallaþorpi, hafi sjálfsagt ekki áttað sig á mikilvægi stundarinnar. Sennilega hefur hann hitt vin sinn á kaffihúsi stuttu síðar sem deildi með honum svipuðum tilraunum, en það skapandi samtal sem vinirnir áttu þetta sumar í Ceret, með skærum, alls kyns pappír og lími, er talið vera upphaf klippimyndarinnar, sem oftast er nefnd collage, eftir franska orðinu coll, sem þýðir lím.

Verkið Uppstilling með stól, frá árinu 1912, þar sem Picasso límir hillupappír inn í kúbískt málverk og umvefur svo allt verkið reipi, er talið marka tímamót í þessu ferli. Hér, líkt og í öðrum kúbískum verkum, er ekkert eitt sjónarhorn, heldur mörg. Við erum á kaffihúsi, vínglasið, pípan, sítrónan, hnífurinn og dagblaðið eru brotin upp en undir málverkinu sjáum við hillupappírinn með ofnu tágamynstri líkt og í sessum kaffihúsastóla þess tíma. Við vitum í hvaða rými við erum en enginn sér veruleikann á sama hátt. 

Í klippmyndunum voru fyrirmyndirnar oftar en ekki úr hversdeginum, líkt og reyndar líka í upphafi kúbismans. Hljóðfæri, dagblöð, pípur og tóbak, spilastokkar, vínflöskur og glös, stólar, borð og konur, alltaf konur. Og hlutirnir sem límdir voru á flötinn voru líka hversdagslegir í raunveruleika sínum. Fyrst var það hillupappírinn sem bættist við tvívíðan flötinn en síðar voru það alls kyns efnismeiri hlutir. Þannig varð málverkið, sem hafði reynt eftir bestu getu frá því á tímum endurreisnar, að herma eftir raunveruleikanum með því að mála þrívíðan veruleika á tvívíðan flöt, þrívítt og skúlptúrískt í nánast einni svipan.

Á sama tíma urðu mörkin á milli fyrirmyndar og eftirmyndar, eða raunveruleika og eftirmyndar, óljós. Hvað var satt og hverju var logið? Og hvað var list og hvað ekki. Var jafn ómerkilegt efni og hillupappír nú orðið að list, og jafn ómerkileg iðja og að klippa út myndir úr dagblöðum nú orðið viðurkennt ferli í listsköpun? Var það ekki eitthvað sem allir gátu gert? Af hverju er hinn mikli meistari málaralistarinnar, sem hafði umbylt málverkinu með Dömunum frá Avignon árið 1907, farinn að nota fábrotinn hillupappír til að miðla hugmyndun sínum? Kannski vegna þess að listin er ekki aðeins handverk og leið til að endurgera heiminn, heldur líka heimspeki.

Allar þessar stóru spurningar sem nútímalist glímir við enn í dag, er að finna í samtali þeirra félaga í Ceret. Enda var sagan af þessum nýju ókönnuðu lendum listarinnar ekki lengi að fljúga til Parísar og þaðan áfram í listamiðstöðvar álfunnar. Í París var Juan Gris á kafi í kúbískum verkum og haustið 1912 sýndi hann sínar fyrstu klippimyndir þar sem hann límdi glerbrot í málverkið. Á svipuðum tíma voru fútúristarnir að prófa sig áfram með ný form á Ítalíu. Einn þeirra, Umberto Boccerini, skrifaði í bréfi til vinar síns í París;

Finndu allt sem þú getur um tilraunir Picasso og Braque. Athugaðu hvort til séu ljósmyndir af verkunum og reyndu að kaupa eitt eða tvö verk. Sendu mér allt sem þú getur.

Fyrr á því sama ári hafði Boccerini ritað stefnuyfirlýsingu fútúristanna þar sem hann kallaði eftir því að listin fjarlægði sig helgislepjunni sem hún vildi svo oft kenna sig við. Nauðsynlegt væri að komast undan hinum æðri formum og efnum, svo sem marmara og bronsi, og horfast í augu við að fleiri en eitt efni í einu kæmi til greina við gerð höggmynda. Listamenn ættu þannig að nota gler, pappír, við, efni, steypu, spegla, leður, hrosshár eða hvað svo sem þeim dytti í hug. Ekkert efni væri öðru æðra .

Hér er listamaðurinn að hugsa það sama og félagarnir í Ceret. Nefnilega að listin eigi að vera hluti af lífinu en ekki hluti af heimi fárra útvaldra. Sumir hafa bent á að þessi þörf listamanna, við upphaf síðustu aldar, þörfin fyrir að klippa út, skera og líma, umbreyta sjónarhornum og búa til eitthvað nýtt úr því sem vanalega var talið vera ekkert, sé afsprengi tímanna sem þau lifðu. Tíma ótrúlega hraðra breytinga, umbreytinga á landslagi og samfélagi og í raun breytinga á sjálfum tímanum. Iðnvæðingin hafði gjörbreytt öllu tempói og um alla álfuna spruttu upp hópar listafólks sem vildu umbreyta listinni með lífinu, og lífinu með listinni.

Klippimyndin fór eins og eldur í sinu um alla þessa framúrstefnuhópa og virðist alltaf hafa fundið  hljómgrunn, kannski af því að hún gat umbreytt hinu hefðbundna. Fútúristarnir höfðu háleitar hugmyndir um að skapa nýja veröld með hjálp listarinnar en það var í gömlu Sovétríkjunum sem sú hugmynd varð í raun að veruleika, því áróðurslistin átti mjög stóran þátt í að mennta og móta sýn rússnesku þjóðarinnar. Og klippimyndin var þar í stóru hlutverki.

Dadaistarnir notuðu líka klippimyndina til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Í Köln og Berlín varð klippimyndin, oftar en ekki gerð úr ljósmyndum, að stórkostlegum listaverkum sem líka hafa sinn sérstaka stíl, líkt og í tilfelli Hönnu Hoch og Max Ernst. Í Hannover skapaði Kurt Scwitters einstakar myndir úr pappírs- og bréfsnifsum og ýmsu smádóti sem hann fann á göngu um borgina sína.

Í Sviss gerði Hans Arp það sama með pappír sem hann reif niður í búta sem hann lét svo, í anda dadaistanna, falla niður á strigann af tilviljun. Þessa tækni átti Arp svo eftir að yfirfæra á trébúta sem samsettir urðu að lágmyndunum sem hann er þekktur fyrir.

Og svona er hægt að halda áfram. Sumir færa rök fyrir því að hinar margfrægu ready mades Duchamps séu í eðli sínu klippimyndir, þ.e hlutir sem settir eru í nýtt samhengi og sem öðlast þannig um leið nýja merkingu. Fyrsta readymade verk hans er vanalega sagt vera flöskugrindin frá árinu 1914. Hlutur sem allir Frakkar þekkja, grind til að hengja flöskur á til þerris verður að listaverki um leið og henni er gefinn sá sess. Þegar grindin er tekin úr hlutverki sínu og færð á stall listarinnar.

Klósettskálin frá 1917 og svo skeggið sem óx á Monu Lisu árið 1919 er í sama anda. Heilagleiki listaverksins hverfur og í staðinn fáum við hugmynd um það hvað listin ætti frekar að vera. Og áhorfandinn spyr sig spurninga. Hvað er nú þetta? Hvernig er þessi klósettskál merkilegri en allar hinar og getur ekki bara hver sem er verið listamaður, fyrst allt þetta drasl er orðið að list?

En aftur til Ceret. Þar sem hin einfalda athöfn, að klippa og líma, breytti gangi listarinnar. Athöfn sem virðist svo einföld, á valdi hvers sem er, en sem samt gerðist akkúrat á þessum stað á þessum tíma. Á meðal tveggja vina sem áttu auðvitað ekki í samtali um skæri og lím, heldur stærstu málefnin. Tímann, skynjunina, sjónarhornið, staðsetninguna, dýptina og sannleikann. Allt eða ekkert, lífið og listin, dauðans alvara. Og allt undir skugga kirsuberjatrjánna í Ceret.

Tengdar fréttir

Pistlar

Saga dularfullu ástaraugnanna

Myndlist

Gleymdar gyðjur súrrealismans

Hönnun

Borgir á tímum farsótta

Menningarefni

Frjálsar ástir á hjara veraldar