Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Tvö krapaflóð og tvö snjóflóð fallið á Austurlandi

15.02.2021 - 08:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tvö vot snjóflóð og tvö krapaflóð hafa fallið á Austfjörðum síðasta sólarhring. Sjö íbúar í þremur húsum á Seyðisfirði þurftu að yfirgefa heimili sín í gærkvöldi vegna snjóflóðahættu. Tveir reitir í bænum voru rýmdir. Magni Hreinn Jónsson, sérfræðingur á ofanflóðavakt veðurstofunnar segir að rýmingar verði í gildi að minnsta kosti eitthvað fram eftir morgninum.„Það stytti upp í nótt þannig aðstæður fara batnandi. Það verður metið núna með morgninum,“ segir Magni Hreinn.

Hættustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á Seyðisfirði og óvissustig annarstaðar á Austfjörðum. Mikið rigndi á Austfjörðum í nótt, úrkoma mældist alveg upp í 133 millimetra á Borgarfirði eystra síðasta sólarhring en tæplega 60 millimetrar á Seyðisfirði - til samanburðar mældust 160 á einum sólarhring í hamfararigningunum þar fyrir jól en núna er mikill snjór í fjöllum.

„Þá geta bæði fallið krapaflóð og vot snjóflóð eins og hefur gerst fyrir austan núna, það eru ekki mörg sem við vitum af. Það hafa fallið tvö krapaflóð og tvö vot snjóflóð. Það er viðbúið að það sjáist fleiri við birtingu,“ segur Magni Hreinn. Litlu minna rigndi síðasta sólarhring á Eskifirði, Neskaupstað og Fáskrúðsfirði eða í kringum 100 millimetrar.  

Yfirlögregluþjónn á Austurlandi sagði í gærkvöld að Seyðfirðingar hafi verið viðbúnir rýmingum um helgina. Svæðið sem nú er rýmt er ekki það sama og var rýmt í desember þar sem nú er hætta á snjóflóðum en ekki aurflóðum. Varðskipið Þór var á Reyðarfirði en hefur verið fært til Seyðisfjarðar til öryggis.