Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sveitarfélög fengu þremur milljörðum of mikið

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Sveitarfélög fengu óvart greitt þremur milljörðum of mikið í staðgreiðslu frá ríki nú um mánaðamótin. Í desember fengu þau líka þrjá milljarða, sem þau áttu að fá en vissu ekki af.

Sveitarfélögum var sagt að frestun á gjalddögum staðgreiðslu í fyrra, sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar í faraldrinum, myndi ekki hafa áhrif á útsvarsgreiðslur til þeirra. Eitthvað hefur þó misfarist í upplýsingaflæði vegna þess að í desember skiluðu sér rúmlega þrír milljarðar til sveitarfélaga sem þau vissu ekki að væri von á. Þetta þýðir að hagur sveitarfélaganna varð betri fyrir vikið en einnig að einhver þeirra höfðu gripið til ráðstafana fyrr um haustið vegna tekjufalls sem síðan var ekki þörf á. 

Tóku hærra lán sem var síðan ekki þörf á

Eitt þessara sveitarfélaga er Grundarfjarðarbær. Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri segir sveitarfélagið hafa bæði endurskoðað fjárhagsáætlun sína vegna tekjumissis og tekið hærra lán um miðjan nóvember. Þegar óvæntir peningar svo skiluðu sér í desember, höfðu þessar auknu ráðstafanir reynst óþarfar. 

„Það kemur í ljós í lok desember að miðað við þær tekjur sem við áttum og vissum ekki af að þá höfðum við tekið allt of hátt lán miðað við það sem við þurftum. Við getum sagt að þetta olli okkur beinu fjárhagslegu tjóni, það er að segja við erum að bera kostnað af láni sem var hærra en við þurftum,“ segir Björg. 

Ofgreiðslur til sveitarfélaga upp á þrjá milljarða

Það var þá nú í byrjun mánaðar sem sveitarfélög fengu um 24 prósentum of mikið greitt út, eða rúmlega þrjá milljarða. Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er ekki vitað hvernig það gerðist, en nú standa yfir viðræður um hvernig það skal leiðrétt. Útlit sé fyrir að þetta sé sama upphæð og sú sem skilaði sér til sveitarfélaganna í desember og hún því verið óvart tvígreidd. Björg segir brýnt að skýring komi á það hvernig þessi mistök urðu.

„Það leiðir að þeirri spurningu, hvað annað getur gerst, fyrst að þetta getur gerst?“

Sveitarfélög greiða ríki vel á tvo milljarða á ári til þess að annast skattinnheimtu fyrir sig. 

„Miðað við þann verðmiða á þessari umsýslu að þá finnst mér við vera að fá afskaplega lítið fyrir peninginn.“

Sveitarfélögin hafa þá ekki aðgang að upplýsingum um hvernig útsvarið skiptist frekar en almennur borgari. Björg segir að það sé grundvallaratriði sem þurfi að bæta úr, til þess að sveitarfélögum sé gert kleift að greina þessar tekjur og hvaðan þær koma.

Fréttin var leiðrétt 20:18. Rétt er að sveitarfélög greiða ríki vel á tvo milljarða til að annast skattheimtu.