Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rýmingu aflétt á Seyðisfirði

15.02.2021 - 09:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Stefánsson
Rýmingu á Seyðisfirði hefur verið aflétt. Áfram er í gildi óvissustig á Austurlandi vegna hættu á ofanflóðum.

Tvö vot snjóflóð og tvö krapaflóð féllu á Austfjörðum síðasta sólarhring og voru þrjú hús rýmd á Seyðisfirði í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni stytti upp seint í nótt og verður úrkomulítið á Austurlandi en einhver úrkoma suðaustanlands. Áfram má gera ráð fyrir hlýju veðri og leysingu.

Í gær féll vott snjóflóð á þjóðveg 1 úr Grænafelli í Reyðarfirði og lokaði veginum. Þá féll vott snjóflóð í Seyðisfirði utan þéttbýlis. Krapaflóð féllu í Öræfasveit, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði.

Háspennulína skemmdist innan við Teigarhorn í aurskriðu í gærkvöldi. Viðbúið er að fleiri flóð hafi fallið austan- og suðaustan lands sem koma í ljós þegar birtir í dag, segir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Í Fagradal.
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV