Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ragga Gísla og Steinunn Þorvaldsdóttir - Þorralögin

Mynd: Dagur Gunnarsson / Dagur Gunnarsson

Ragga Gísla og Steinunn Þorvaldsdóttir - Þorralögin

15.02.2021 - 15:50

Höfundar

Þorralögin eftir Ragnhildi Gísladóttur, við texta Steinunnar Þorvaldsdóttur, eru nú aðgengileg á streymisveitunni Spotify. Halldór G. Pálsson, Fjallabróðir, sá um upptökur en um flutning annast hljómsveitin Spraðabassar en hana skipa auk þeirra Ragnhildar og Halldórs, Bryndís Jakobsdóttir, Sverrir Bergmann, Tómas Jónsson og Magnús Magnússon.

„Eins furðulega og það kann að hljóma eru þetta fyrstu alíslensku þorralögin,” segir Ragnhildur. „Þau lög sem við tengjum yfirleitt við þennan mánuð, samanber Nú er frost á Fróni, eru öll erlend.”

Í bókinni Velkominn þorri, sem kom út árið 2010 hjá bókaforlaginu Sölku, tóku þær Ragnhildur og Steinunn saman ýmsan fróðleik um þorra og þorrahefðir og kynntu jafnframt tvö ný lög um þorrann, Velkominn þorri og Þorrinn er kominn. Í kjölfarið sömdu þær tvö önnur lög, Bóndadagshopp og Þorragleðigleðigaman, sem komu út á disknum Þorralögin árið 2011, ásamt hinum tveimur. Árið 2017 bættust svo við lögin Reynir að gera gott úr því og Þorralitirnir, sem voru kynnt á þorranum það ár í sjónvarpsþætti á RÚV, sem byggðist á samantekt þeirra Ragnhildar og Steinunnar um þorrann.

Lögin sex eiga það sameiginlegt að segja sögur tengdar þorranum og miðast textinn við að halda þessum frásögnum og hefðum lifandi:

• Velkominn þorri - Samkvæmt heimildum frá því snemma á 18. öld var til siðs að húsfreyja færi út kvöldið fyrir bóndadag til að bjóða þorra velkominn með fögrum tilmælum um að vera sér og sínum léttur og skaðlaus.
• Bóndadagshoppið fjallar um þann umdeilda sið að húsbóndi færi á fætur að morgni fyrsta dags þorra og hoppaði kringum húsið fáklæddur að neðan.
• Þorrinn er kominn byggist á lýsingu manns af föður sínum í gervi þorra á þorrablóti í byrjun síðustu aldar.
• Þorragleðigleðigaman gerist í nútímanum á leið á þorrablót.
• Reynir að gera gott úr því lýsir aðstæðum forvera okkar þegar matarföngin voru þorrin og aðstæður erfiðar. Rætur íslenskrar matar- og hátíðahefðar liggja í þessum veruleika.
• Þorralitirnir lýsa því hvernig við undirbúum komu Þorra með viðeigandi stemningu þar sem við drögum fram litbrigði og tákn til að minna á okkur á jarðveginn sem við erum sprottin úr.

Plata Röggu Gísla og Steinunnar Þorvaldsdóttur, Þorralögin, sem eru flutt ásamt Spraðabössum er plata vikunnar á Rás 2. Hún verður flutt í heild sinni ásamt kynningum Röggu og Halldórs Gunnars eftir 10-fréttir í kvöld auk þess að vera aðgengileg í spilara.