Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óvissu um framtíð álversins í Straumsvík eytt

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Rio Tinto, eigandi álversins í Straumsvík hefur dregið kvörtun sína til Samkeppniseftirlitsins um orkusölu Landsvirkjunar til baka eftir að fyrirtækin náðu samkomulagi um viðauka við orkusamninginn. Óvissu um framtíð álversins hafi verið eytt.

Tilkynnt var um viðaukann undir hádegið. Eins og áður kveður samningurinn á um sölu á 390 megavöttum á ári og hann gildir til ársins 2036.

Í samgeiginlegri yfirlýsingu segir að með breytingunum sé styrkari stoðun rennt undir samkeppnishæfni álversins í Straumsvík. Grunnur raforkuverðsins hefur tekið breytingum, en áfram er hann bundinn bandaríkjadal og tengdur við bandaríska neysluvísitölu, en hann er einnig að litlum hluta tengdur álverði.

Rio Tinto kvartaði í júlí í fyrra til Samkeppsinseftirlitsins vegna Landsvirkjunar, en að mati fyrirtækisins fólst í samningi fyrirtækjanna mismunum og að Landsvirkjun hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með mismunandi verðlagningu og langtímaorkusamningum. Í febrúar tilkynntu stjórnendur Rio Tinto að starfsemin yrði endurskoðuð og álverinu hugsanlega lokað.

Í fréttatilkynningu Landsvirkjunar og Rio Tinto í dag segir Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto á Íslandi að með viðaukanum sé óvissu um starfsemina í Straumsvík eytt og nú sé hægt að einbeita sér að framleiðslu hágæða áls. Samningur fyrirtækjanna verður ekki gerður opinber að svo stöddu.