Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Mun minni notkun sýklalyfja í faraldrinum

15.02.2021 - 14:51
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Veirusýkingum og bakteríusýkingum, eins og eyrna- og lungnabólgu, hefur fækkað og er sú þróun rakin til aukinna einstaklingsbundinna sóttvarna vegna COVID-faraldursins. Þetta kom fram í máli Ölmu Möller landlæknis á upplýsingafundi Almannavarna í dag.

„Sýklalyfjaávísunum fækkaði til muna á liðnu ári, mest hjá börnum, en heilt yfir um 16 prósent og enn meira ef litið er til meðaltals fimm ára þar á undan. Þetta er jú mjög mikilvægt því sýkingar valda þjáningum, þær valda auknu álagi á heilbrigðiskerfið og fjarveru frá vinnu. Svo er auðvitað ein af stóru áskorunum sem mannkynið glímir við til skemmri og lengri tíma vaxandi sýklalyfjaónæmi,“ sagði landlæknir í morgun. 

„Þannig að ég vona svo sannarlega að einstaklingsbundnar sóttvarnir séu komnar til að vera,“ sagði Alma og hvatti fólk til að vera áfram á verði og sinna einstaklingsbundnum sóttvörnum og fylgja reglum um opinberar sóttvarnir. „Sýnum áfram seiglu og yfirvegun þar til faraldurinn er að baki.“