Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hildur Guðnadóttir valin háskólakona ársins

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Marsibil Clausen

Hildur Guðnadóttir valin háskólakona ársins

15.02.2021 - 14:52

Höfundar

Félag háskólakvenna hefur valið háskólakonu ársins 2020. Fyrir valinu varð Hildur Guðnadóttir, tónskáld.

Það var samdóma álit stjórnar Félags háskólakvenna að Hildur Guðnadóttir, tónskáld og sellóleikari, sé háskólakona ársins 2020. Þetta er í fjórða sinn sem Félag háskólakvenna, stofnað1928, stendur fyrir valinu.

Við valið er horft til þess að framlag háskólakonu ársins til samfélagsins þyki skara fram úr, að hún sé brautryðjandi á sínu fagsviði og að hún sé góð fyrirmynd fyrir aðrar háskólakonur.

Í áliti stjórnar félagsins segir að Hildur Guðnadóttir uppfylli vel öll þau skilyrði sem sett eru fyrir valinu og þykir hún hafa sýnt í verki hverju það getur skilað að hafa góða menntun í farteskinu. Tilgangur þess að velja háskólakonu ársins er að vekja athygli á fjölbreyttum starfsvettvangi háskólakvenna, beina kastljósinu að störfum þeirra og undirstrika framlag þeirra til samfélagsins. Auk þess sem félagið vill fagna framgangi þeirra, áræðni og sérstökum árangri.

Hildur Guðnadóttir, tónskáld og sellóleikari, er með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í Universität der Künste í Berlín. Í tilkynningu segir að Hildur hafi náð framúrskarandi árangri á sínu sviði og hlotið fjölmargar viðurkenningar og verðlaun fyrir tónverk sín.

Hanna Lára Helgadóttir, formaður Félags háskólakvenna, segir að Hildur sé vel að viðurkenningunni komin. „Hún hefur náð stórkostlegum árangri á sínu sviði og fáir Íslendingar sem hafa náð viðlíka árangri. Það er okkur í stjórn Félags háskólakvenna því mikill heiður að veita Hildi þessa viðurkenningu.“

Vegna COVID-19 fékk Hildur viðurkenninguna afhenta rafrænt.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Næsta verkefni Hildar er stjörnum prýdd Hollywood-mynd

Klassísk tónlist

Hildur og Víkingur taka á móti Opus-verðlaunum

Tónlist

Segir nei við nánast öllu

Tónlist

Sigurganga Hildar Guðnadóttur heldur áfram