Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fegurðarsamkeppni grunnurinn að atvinnumannaferlinum

Mynd: Arnaldur Halldórsson / ÍSÍ

Fegurðarsamkeppni grunnurinn að atvinnumannaferlinum

15.02.2021 - 18:08
Guðni Bergsson spilaði sem atvinnumaður á Englandi í 15 ár og lék með bæði Tottenham og Bolton. Hann spilaði með fjölmörgum stórstjörnum og er Paul Gascoigne einn sá eftirminnilegasti. Þeir urðu nánast eins og bræður eftir að hafa búið saman á hóteli í nokkra mánuði.

Guðni var mjög tryggur þeim félagsliðum sem hann spilaði með. Þrátt fyrir langan feril spilaði hann aðeins með þremur félagsliðum. Alls lék hann nærri 500 deildarleiki á ferlinum auk 80 landsleikja fyrir A-landslið Íslands. Guðni var gestur Felix Bergssonar í þættinum Fram og til baka á Rás 2 og fór þar yfir þau lið sem hann hefur leikið með í gegnum farsælan feril sinn. 

Foreldrar Guðna kynntust á Siglufirði þegar að pabbi hans fór þangað til að taka þátt í síldarævintýrinu. Þar kynntist hann mömmu Guðna og saman fluttu þau suður til Reykjavíkur. Íþróttaáhugann erfði Guðni frá pabba sínum en aðeins fjögurra ára gamall var Guðni farinn að fylgja pabba sínum á æfingar hjá Val, en pabbi Guðna spilaði bæði handbolta og fótbolta með liðinu.

Þegar Guðni byrjaði sjálfur að æfa var árangurinn meiri í handboltanum. Þar var hann í gríðarlega sterku liði með fjölmörgum landsliðs- og atvinnumönnum, þar má nefna Geir Sveinsson, Júlíus Jónasson, Valdimar Grímsson og fleiri. Guðni var fljótlega farinn að spila með meistaraflokki Vals í handbolta og taldi sig eiga betri möguleika þar en í fótboltanum. Eftir að hann fékk svo loks tækifæri með meistaraflokk Vals í fótbolta var ekki aftur snúið. Stefnan var þó alls ekki sett á atvinnumennsku. „Í þá daga fyrir einhvern varnarmann á Íslandi að verða atvinnumaður? Það var enginn ferill. Ég ætlaði bara að verða lögfræðingur eins og pabbi,” segir Guðni.

Þarna var Guðna farið að ganga vel í fótboltanum, Valsmenn urðu Íslands- og bikarmeistarar og hann var valinn í landsliðið. Hann var þó ekkert farinn að spá í atvinnumennsku ennþá. „Ég var ekkert að spá í það og fór í mína lögfræði,” segir Guðni. Hann var á fullu í náminu þegar hann fór á reynslu til Aston Villa og á stutt lán til 1860 Munchen í Þýskalandi. Ekkert meira varð þó úr þeim áhuga og Guðni hélt áfram að spila með Val á Íslandi. Í raun má segja að stóra tækifærið hafi svo komið út frá fegurðarsamkeppninni Ungfrú heimur. Baldvin Jónsson var umboðsmaður keppninnar á Íslandi og hitti írskan kollega sinn. Sá þekkti Terry Venebles, þáverandi stjóra hjá Tottenham, og Baldvin sá sér leik á borði og lét Írann vita að hann þekkti íslenskan varnarmann sem væri svarið við öllum vandræðum Tottenham liðsins. „Það var ótrúlegt. Það var absúrd. Ég var ekki búinn að æfa í 4-5 vikur, var bara í lögfræðinni. Í þá daga kláraðist tímabilið í september og þú fórst að vinna í þínu í nokkra mánuði svo byrjaði undirbúningstímabilið í janúar. Ég er í mínu námi að jafna mig eftir tímabilið þegar kemur: „Tottenham vill fá þig til æfinga,” segir Guðni.

Missti tennurnar fyrsta veturinn

Guðni stóð sig vel á reynslu hjá Tottenham og fékk samning hjá liðinu. Allt í einu var hann því farinn úr þægindunum á Íslandi og mættur á troðfullan White Hart Lane, heimavöll Tottenham. Enskir fjölmiðlar fjölluðu mikið um komu Guðna til liðsins enda sárafáir erlendir leikmenn í efstu deild á Englandi á þessum árum. 

Ekki leið á löngu þar til Guðni fékk að kynnast hörkunni sem var við lýði í ensku deildinni á þessum árum. „Ég missti tennurnar þarna fyrsta veturinn, fékk olnbogaskot og það var ekki einu sinni spjald á viðkomandi. Þetta var enski boltinn í hnotskurn,” segir Guðni. Fjölmargir þekktir leikmenn spiluðu með Tottenham á þessum árum, má þar nefna Paul Gascoigne, Gary Lineker, Gary Mabutt, Chris Waddle og fleiri. Íslendingurinn varð snemma skotspónn liðsfélaga sinna og það tók Guðna smá tíma að venjast húmornum hjá bresku leikmönnunun sem gat bæði verið grimmur og óvæginn. Eftir að hafa vanist húmornum í klefanum varð Guðni þó góður félagi leikmanna liðsins. „Þegar maður hittir þessa gaura, þá er eins og það sé gærdagurinn. Ég hitti Lineker á HM og það var rosalega gaman, hafði ekki hitt hann lengi,” segir Guðni.

Guðni og Gascoigne eins og bræður

Einn af liðsfélögum Guðna hjá Tottenham var stórstjarnan Paul Gascoigne. Hann og Guðni náðu mjög vel saman enda bjuggu þeir saman á hóteli í um þrjá mánuði. „Við vorum bara eins og bræður þarna. Það var skemmtilegur tími, það sem var brallað og vitleysast, meira af honum en mér verð ég að taka fram. Strákurinn hafði svo mikla gleði og líf í sér. Var svo frábærlega hæfileikaríkur fótboltamaður og varð frábær knattspyrnumaður. Endalaus fíflalæti og stríðni út í eitt, maður var aldrei öruggur með eitt né neitt,” segir Guðni. Að hans sögn var Gascoigne með hjarta úr gulli, hann var viðkvæmur og glímdi auðvitað við sína fíkn. Á þessum árum var önnur stemning varðandi drykkju leikmanna, það þótti ekkert tiltökumál þó að leikmenn skelltu sér út á lífið 2-3 sinnum í viku.

Eftir fjögur ár ákvað Guðni að segja skilið við Tottenham. Hann hafði þá glímt við erfið meiðsli í baki og sá ekki fram á að spila alla leiki með liðinu. Þarna voru reglur varðandi samningsmál allt öðruvísi en þær eru í dag, þrátt fyrir að vera samningslaus átti Tottenham í raun rétt á honum en lagði blessun sína yfir að hann færi að láni til Vals. Þar var markmiðið bara að hvíla aðeins fótboltann og einbeita sér að lögræðináminu. „Ég skil ekkert í þessum unga manni, hvernig ég horfði á þetta,” segir Guðni.

Guðni spilaði með Val tímabilið 1994 á Íslandi og kláraði lögfræðinámið. Hann heyrir svo í byrjun árs 1995 af áhuga Bolton og fer strax að athuga hvar Bolton er á landakortinu. Félagið hafði þá verið í smá brasi undanfarin ár, en liðið er eitt það fornfrægasta á Englandi, stofnað árið 1874 og eitt af 12 stofnliðum ensku deildarinnar. Áður hafði Guðni einnig farið á reynslu hjá Crystal Palace en útaf lagaflækjum með samning hans hjá Tottenham varð ekkert af félagsskiptum þangað. Bolton náði að leysa þann hnút og Guðni gat því skrifað undir samning við liðið. 

Hætti á toppnum

Þegar Guðni skrifar undir hjá Bolton hafði mikill uppgangur verið hjá liðinu og stefnan sett á úrvalsdeildarsæti. Fyrsti leikur Guðna með Bolton var úrslitaleikur í deildarbikarnum gegn Liverpool sem tapaðist naumlega, en Guðni kom þá inn á sem varamaður. Stuttu síðar spilaði hann aftur á Wembley, nú í úrslitaleik gegn Reading um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni. Bolton vann þann leik með dramatískum hætti þar sem lokatölur urðu 4-3 og úrvalsdeildarsætið því tryggt.

Fjölskyldunni leið vel í Bolton, þarna eignuðust þau góða vini og börnunum leið vel. „Það var gríðarlega gott að vera með krakkana þarna. Þetta er sjarmerandi staður. Þessi kósíheit, þetta enska samfélag á mörkum sveitar og borgar. Við nutum okkar alveg gríðarlega vel þarna og ég líka fótboltans,” segir Guðni. Hann átti sín bestu ár fótboltalega séð hjá Bolton, var fyrirliði liðsins nær alla tíð og tengdist stuðningsmönnum vel.

Í dag er Guðni ennþá mikill stuðningsmaður Bolton þrátt fyrir að illa hafi gengið hjá liðinu og það nú í neðstu deildinni á Englandi. „Það er bara peningaleysi og slæm stjórnun tveggja eigenda í röð. Nú er þetta stolta félag í neðstu deild en við komum til baka,” segir Guðni. Hann lagði sjálfur skónna á hilluna að verða 38 ára gamall og spilaði sitt síðasta tímabil í úrvalsdeildinni. “Ég ákvað að hætta, ég hefði getað spilað tvö ár í viðbót, mér var boðinn samningur. Ég sé pínku eftir því stundum,” segir Guðni sem vildi hætta á sínum forsendum enda fjölskyldan þarna flutt aftur til Íslands.

Dáist að eljunni á Íslandi

Í dag starfar Guðni sem formaður KSÍ, starf sem hann hefur gegnt síðan árið 2017. Í gegnum störf sín hjá KSÍ hefur Guðni lagt áherslu á grasrót fótboltans og nefnir hann heimsókn á Vopnafjörð sem gott dæmi um það góða og mikilvæga starf sem unnið er í grasrótinni. „Ég fór þarna á síðasta ári, heimsótti Einherja á Vopnafirði og gisti á Hótel Tanga í góðu yfirlæti og horfði þarna á leik á móti Ægi frá Þorlákshöfn,” segir Guðni. Lið Ægis hafði þá ferðast í 12 tíma til að spila leikinn og heillaðist Guðni af eljunni og dugnaðinum hjá báðum liðum. „Þetta endurspeglar starfið allstaðar, við getum talað um Magna, Völsung, Sindra, Vestra, Víking Ó og svo framvegis. Auðvitað á þetta líka við liðin á höfuðborgarsvæðinu. En það er erfiðara stundum að halda þessu starfi úti á landsbyggðinni, það er meira fyrir því haft. Þarna er 600 manna byggðarlag í Vopnafirði. Dáldið afskekkt, þeir eru með meistaraflokk karla, vilja byrja með meistaraflokk kvenna, yngri flokka starf og allt þetta. Maður ber mikla virðingu fyrir þessu starfi,” segir Guðni sem upplifir sterkt hversu margir koma að knattspyrnunni hér á landi. „Ég upplifi þetta ennþá sterkara þegar maður reynir þetta sjálfur sem formaður KSÍ. Þá finnur maður hvað eru margir sem koma að þessu góða starfi. Sjálfboðaliðar, þjálfarar, forsvarsmenn og leikmenn.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Guðna Bergsson í heild sinni hér. 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Guðni einn í framboði til formanns