Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Andspyrna og árásir gegn mannréttindum fara sívaxandi

Mynd: Skype / RÚV
Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa í fyrsta sinn hrundið af stað alþjóðlegri neyðarsöfnun vegna vaxandi andspyrnu gegn mannréttindum á heimsvísu. Stærsti vandinn liggur í að ríki eins og Bretland og Bandaríkin eru farin að virða alþjóðalög að vettugi, segir mannréttindalögfræðingur.

Árásum gegn blaðamönnum, lögfræðingum, baráttufólki og samtökum fer fjölgandi um heim allan. Árásirnar eru allt frá því að stöðva eða hamla starfsemi að fangelsun og pyntingum. Toby Cadman er einn stofnenda Guernica 37, lögmannstofu í Lundúnum sem sérhæfir sig í mannréttindamálum um allan heim. Hann segir að ástæðurnar séru margar. „Ein af þeim ástæðum sem hafa verið nefndar er uppgangur popúlisma sem við höfum séð undanfarið. Alræðis- og einræðisríki víða um heim hafa líka notað heimsfaraldurinn sem skálkaskjól til þess að ráðast á pólitíska andstæðinga sína.“ 

Hér má sjá brot af þeim hlutum sem Amnesty telur breytingar til hins verra:

  • Filippseyjar: Forsetinn Rodrigo Duterte kvittaði undir ný lög á síðasta ári sem gefa ríkisstjórninni víðtæk og óheft völd til þess að flokka aðgerðarsinna og andófsmenn sem hryðjuverkamenn og sækja til saka. 
  • Tyrkland: Í lok síðasta árs samþykkti tyrkneska þingið í flýti lög sem við fyrstu sýn virðast fjalla um bann við fjármögnun til kaupa á gereyðingarvopnum en í raun eru þau mjög heftandi fyrir samtök sem berjast fyrir borgarlegum réttindunum.
  • Ungverjaland: Ríkisstjórn Viktors Orban samþykkti nýtt ákvæði í hegningarlög þar sem hægt er að dæma fjölmiðlafólk og aðra í fanglesi fyrir að dreifa misvísandi upplýsingum um faraldurinn. 

Gefur einræðisríkjum frítt spil

Cadman tekur Egyptaland sem dæmi um ríki þar sem orðið hefur algjört hrun á öllu sem tengist lýðræði. „Ég tel að vandamálið felist í því að þegar við sjáum ríki á borð við Bandaríkin og Bretland brjóta gegn alþjóðarétti, mannréttindum og grundvallarfrelsi, gefur það alræðis og einræðisríkjum um heim allan frítt spil til þess að gera slíkt hið sama,“ segir hann. 

epa08147196 Egypt's President Abdel Fattah al-Sisi (L) meets with Britain's Prime Minister Boris Johnson (R) at Downing Street in London, Britain, 21 January 2020. The two met for bilateral talks.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Abdel Fatah al-Sisi forseti Egyptalands og Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands á góðri stundu í fyrra.

Sem dæmi nefnir Cadman afneitun Trumps á lýðræðislegum niðurstöðum forsetakosninganna og að hann hafi haldið hlífiskildi yfir stjórnvöldum í Sádi-Arabíu vegna morðsins á blaðamanninum Jamal Khashoggi. Þá hafi stjórnvöld í Bretlandi varið brot á alþjóðalögum í viðræðum um Brexit-samning. „Við getum heldur ekki lengur andmælt stjórnvöldum. Ég er lögmaður uppljóstrara sem er í fangelsi í Króatíu fyrir að upplýsa um eit mesta hneykslismálið í olíu- og gasiðnaðinum, mál sem snýst um mikla spillingu í olíu- og gasiðnaðinum, mál sem snýst um mikla spillingu.“

En hverjar eru afleiðingarnar og eru einhver verkfæri til sem berjast gegn þessari þróun? „Að mínu mati er þetta eitt mesta vandamálið í samtímanum. Alþjóðlegir mannréttindasáttmálar eru varla virði pappírsins sem þeir eru skrifaðir á. Tökum Egyptaland aftur sem dæmi. Þegar viðskipti og diplómatatengsl eru farin að trompa mannréttindi verður það að raunverulegu vandamáli,“ segir Cadman.